30. apríl 2025 tilkynnti atvinnuvegaráðuneytið um árlega úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Alls fengu 28 verkefni styrk og er ánægjulegt að tilkynna að Rangárþing ytra er þar á meðal.
Sveitarfélagið sótti um styrk fyrir undirbúningsvinnu við uppbyggingu öryggisinnviða og annarra nauðsynlegra innviða við Sigöldugljúfur en fyrst um sinn verður ráðist í hönnunar- og deiliskipulagsvinnu.
Sigöldugljúfur hefur notið síaukinna vinsælda sem áfangastaður án þess að þar séu nokkrir innviðir til staðar. Nú er fjöldi ferðamanna sem fer á svæðið til að njóta fegurðar gljúfursins orðinn slíkur að brýn þörf er á að huga að skipulagi svæðisins og hefja vinnu við hönnun þess með það að sjónarmiði að tryggja sem best öryggi þeirra sem þangað koma.
Landverðir hafa markað bílastæði og gönguleið til bráðabirgða en hafa lýst miklum áhyggjum af stöðunni þar sem brún gljúfursins sem fólk notar sem útsýnisstað er ekki stöðug.
Ekki síður hefur það valdið áhyggjum að fólk fer oft ofan í gljúfrið án þess að gera sér grein fyrir hættunni sem því fylgir.
Í umsókn sveitarfélagsins kemur fram að Rangárþing ytra, forsætisráðuneytið, Landsvirkjun og Landverðir á vegum Umhverfisstofnunar á svæðinu eru einróma sammála um að afar brýnt sé að huga að öryggismálum við Sigöldugljúfur. Brún þess er ótraust og gæti gefið sig með auknum ágangi og augljóst er að fall ofan í gljúfrið er lífshættulegt. Mikilvægt er að setja einhvers konar mörk við brúnina auk aðvörunarskilta. Einnig er áríðandi að reyna að tryggja að fólk hætti sér ekki ofan í gljúfið þar sem slíkt er lífshættulegt vegna þess að við ófyrirséðar aðstæður er vatni hleypt á gljúfrið án fyrirvara þar sem það er notað sem affall af Sigöldulóni.
Í umsögn ráðuneytisins kemur eftirfarandi fram:
„Styrkurinn snýr að undirbúningi og felur í sér að vinna frumdrög hönnunar, deiliskipulags og lokahönnun á öryggisinnviðum, en um er að ræða hönnun á varanlegu bílastæði, gönguleiðum, viðvörunar- og upplýsingaskiltum auk hugsanlegra lokana eða afmarkana sem kunna að vera nauðsynlegar. Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi og öryggi við Sigöldugljúfur sem sífellt fleiri ferðamenn eru að uppgötva sem áfangastað. Verkefnið er hluti af áfangastaðaáætlun Suðurlands og fellur vel að markmiðum sjóðsins um bætt öryggi ferðafólks og náttúruvernd.“
Styrkupphæðin er kr. 21.751.337 og verður hún nýtt til að ráðast í þessa brýnu undirbúningsvinnu við að bæta aðstæður og öryggi við Sigöldugljúfur.