Ljósmynd: Silla Páls.
Ljósmynd: Silla Páls.

38 fyrirtæki, 7 sveitarfélög og 8 opinberir aðilar hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA. Á árinu 2021 bættust við 37 nýir þátttakendur í hóp þeirra aðila sem taka þátt í Jafnvægisvoginni.

Frábær árangur á meðal þátttakenda í Jafnvægisvog FKA

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í dag stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2020 voru viðurkenningarhafar 45 talsins en í ár voru þeir samtals 53.

Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, PiparTBWA og Ríkisútvarpið.

Þrjátíu og átta fyrirtæki, sjö sveitarfélög og átta opinberir aðilar hljóta viðurkenningu

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til þrjátíu og átta fyrirtækja, sjö sveitarfélaga og átta opinberra aðila úr hópi þeirra 152 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið var til. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2020 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum sem hafa náð markmiðunum um 8 á milli ára. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

 

Gróðursetning í Jafnréttislundi

Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2020 kynnti Eliza Reid nýjan Jafnréttislund FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Lundurinn er staðsettur við einn aðal innganginn í Heiðmörk, Vífilsstaðamegin, og er það fyrsta sem fólk mætir þegar það gengur inn í Heiðmörk. Í fyrra gróðursettu forsvarskonur frá Jafnvægisvoginni 45 tré í nafni hvers viðurkenningarhafa það ár. Í ár voru gróðursett 53 tré, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2021. Valdar voru margar tegundir af trjám sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin er að stuðla að. Alls er því búið að setja niður 97 tré í Jafnréttislundi á síðustu 2 árum. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.

Aðgengileg og skýr framsetning upplýsinga

Að setja fram lykilmælikvarða á árangri er nauðsynlegt til að tryggja aðhald og góða frammistöðu. Með mælaborði Jafnvægisvogarinnar eru allar helstu opinberar upplýsingar um stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og innan hins opinbera gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.

Bættist í hóp fyrirtækja og sveitarfélag sem sjá sér hag í að vinna með Jafnvægisvoginni

Mikill vilji hefur verið hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum að vinna að jafnréttismálum þegar kemur að æðstu stjórnendum. Á árinu undirrituðu alls tuttugu og þrjú fyrirtæki, tvö sveitarfélög og tólf opinberir aðilar viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar og bættust þar með í hóp þeirra sem undirrituðu á síðustu árum. Þátttakendur eru orðnir 152 þátttakendur talsins. Fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. Þátttakendur hafa þannig sýnt í verki að þau vilja virkja allan mannauðinn.

 

Eftirfarandi fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í ár:

 

  • 1912 ehf.
  • AGR Dynamics
  • Akureyrarbær
  • Arion banki
  • Atmonia
  • BL ehf
  • BYKO
  • Center Hotels
  • Coca Cola European Partners á Íslandi
  • Fangelsismálastofnun
  • Félagsbústaðir
  • Fly PLAY hf.
  • Framkvæmdasýsla ríkisins
  • Guðmundur Arason ehf
  • Háskóli Íslands
  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  • Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
  • Ísafjarðarbær
  • Íslandsbanki
  • Íslandshótel
  • Íslandspóstur
  • Ístak hf.
  • Krónan
  • Landhelgisgæsla Íslands
  • Lota
  • LSR – Lífeyrissjóður starfsmanna ríkis
  • Lyf og heilsa
  • Lyfja
  • Múlaþing
  • Norðurál Grundartangi ehf.
  • Nova
  • Olíuverzlun Íslands
  • Orka Náttúrunnar
  • Orkuveita Reykjavíkur
  • Pipar/TBWA
  • Rangárþing ytra
  • Reykjanesbær
  • Rio Tinto á Íslandi
  • Ríkisútvarpið
  • Samkaup
  • Seðlabanki Íslands
  • Seltjarnarnesbær
  • Sjóvá
  • Skatturinn
  • Sólar ehf.
  • Tryggja
  • Valitor
  • Veritas
  • Vesturbyggð
  • Vélsmiðja Suðurlands ehf
  • VIG ehf
  • VÍS
  • Vörður tryggingar

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?