Framkvæmdasvæðið vestan við Reykjagarð // mynd frá Reykjagarði hf.
Framkvæmdasvæðið vestan við Reykjagarð // mynd frá Reykjagarði hf.

Reykjagarður hf. hefur nú hafið framkvæmdir við stækkun fyrirtækisins á Hellu en síðastliðinn mánudag hófust jarðvegsframkvæmdir og næstu daga verður unnið við gerð nýrra bílastæða og akstursleiða vestan við sláturhúsið.

Í framhaldinu verður svo hafist handa við mokstur fyrir nýbyggingu, austan við gamla húsið. Þá munu bílastæðin þar flytjast vestur fyrir.

25 störf flytjast á Hellu

Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að nýbyggingin verði u.þ.b. 3.500 m2. Hún mun rísa austan við gamla húsið og tengjast því með tengibyggingu. Gert er ráð fyrir að nýja byggingin hýsi þá starfsemi sem nú er í elsta hluta núverandi húsnæðis, þ.e. hlutun, úrbeiningu, fullvinnslu, pökkun, frysti, kæla og afgreiðslu. Samhliða verður vélbúnaður endurnýjaður að mestu. Til stendur svo að flytja starfsemi sem í dag er rekin með 25 stöðugildum á höfuðborgarsvæðinu yfir í nýja húsið á Hellu.

Hann segir stefnt á að húsið verði komið upp í haust og að næsti vetur verði notaður til innanhússfrágangs og uppsetningar vélbúnaðar. Starfsemi í nýrri vinnslu muni svo hefjast um mitt ár 2027.

Framfaraskref í góðri samvinnu

Guðmundur segir að með þessu verði stigið stórt framfaraskref í sögu Reykjagarðs, sem gerir fyrirtækinu kleift að vera áfram í fremstu röð matvælafyrirtækja og hornsteinn í atvinnulífi Rangárþings. Hann tekur fram að ekki verði komist hjá einhverri röskun á starfsumhverfinu Hellu á meðan á framkvæmdum stendur og biðst fyrirtækið fyrirfram velvirðingar á því.

Að lokum segir Guðmundur ástæðu til að þakka sveitarstjórnaryfirvöldum í Rangárþingi Ytra velvild og samvinnu við að koma þessu öllu í kring. Slíkt er forsenda þess að unnt sé að ráðast í atvinnuuppbyggingu af þessari stærðargráðu og mikils metið.

Framkvæmdasvæðið séð til austurs

Framkvæmdasvæðið séð til vesturs