Sameiginlegur opinn íbúafundur Rangárþings ytra og Ásahrepps

Sameiginlegur opinn íbúafundur Ásahrepps og Rangárþings ytra verður haldinn á Laugalandi n.k. laugardag 9. maí kl. 11:-14:00

  • Sveitarfélögin Ásahreppur og Rangárþing ytra hafa lengi haft með sér samstarf um margvísleg verkefni. Flest þeirra eiga sér langa sögu eða frá því fyrir sameiningu gömlu hreppanna árið 2002. Samstarf um Holtamannaafrétt á sér t.a.m. yfir aldarlanga sögu og samstarf hefur verið um fræðslumál allt frá 1958.
  • Á sameiginlegum fundi sveitarstjórna Ásahrepps og Rangárþings ytra þann 11. desember 2014 var ákveðið að taka til endurskoðunar öll samstarfsverkefni sveitarfélaganna.
  • Markmið þessarar endurskoðunar er að meta árangur og gera þetta samstarf skýrara og árangursríkara. Eins er markmiðið að greina hvort færi séu til að efla og auka samstarfið enn frekar báðum aðilum til hagsbóta.
  • Skipuð var sérstök viðræðunefnd sem starfað hefur undanfarna mánuði og tilgangur opna íbúafundarins er að kynna þá vinnu sem fram hefur farið til þessa.
Helstu samstarfsverkefnin eru:
  • Eignaumsýsla:
    Sameiginlegar eignir eru verulegar bæði hús og lendur. Eigurnar eru nú að hluta til vistaðar í tveimur byggðasamlögum Húsakynnum bs og Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps bs.
  • Rekstur fræðslu, menningar og íþróttastarfs:
    Sameiginleg rekstrarverkefni á sviði fræðslu, menningar og íþróttastarfs eru Grunnskólinn á Laugalandi, Leikskólinn á Laugalandi og Íþrótta- og menningarmiðstöðin á Laugalandi.
  • Hjúkrunarheimilið Lundur:
    Rekstur á Lundi er á fjárlögum en eignirnar eru sameign sveitarfélaganna og ríkisins. Yfir starfseminni er stjórn sem skipuð er af sveitarstjórnunum.
  • Holtamannaafréttur:
    Hér er um að ræða verkefni á sviði fjallskila og stjórnsýslu afréttarins.
  • Þjónustuverkefni og önnur samstarfsverkefni:
    Hér má nefna ýmiss þjónustuverkefni s.s. um bókhald, gjaldskrár, starfsmannamál, gámavöll, vinnuskóla, félagsmiðstöð, umsjón með Holtamannaafrétti og snjómokstur. Einnig má nefna möguleg samstarfsverkefni t.d. á sviði fjarskipta.
Frekari gögn má nálgast í fundargerðum samráðs- og viðræðunefnda á heimasíðum sveitarfélaganna.
Áfangaskýrslu um endurskoðun samstarfsins má finna á slóðinni: ry.is/efni/skyrslur
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?