Samkeppni um land - Málþing um landnýtingarstefnu í Rangárþingi

Á málþinginu verður fjallað um ýmsar spurningar um ráðstöfun á landi. Umræðan kemur því inn á þá miklu auðlind sem land er og áleitnar spurningar um hverjir eiga að ákveða hvernig því er ráðstafað. Greint verður frá þróun landnýtingar á Suðurlandi, orsakir og áhrif. Suðurland er ríkt af landi og nefna má þar bestu akuryrkjusvæði landsins eru í héraðinu. Eiga sveitarfélög að hafa vald til að koma í veg fyrir notkun besta akuryrkjulandsins til annarra nota en akuryrkju sem sumir myndu kalla eignarnám? Á að taka hvaða landgerð sem er undir skógrækt? Hvernig á þá að flokka land eftir landgæðum og framleiðslugetu þess? Fjallað verður einnig um möguleika sem felast í hinum ýmsu landnýtingarformum og hagkvæmni þeirra Hvaða möguleikar felast í nýtingu auðlinda héraðsins, oft á tíðum einstakar náttúruperlur í héraðinu og á heimsvísu. Á að leyfa óhefta nýtingu þeirra svæða fyrir ferðaþjónustu án þess að tryggja verndun þeirra? Bent verður á hvernig nýting og náttúruvernd gætu hugsanlega farið saman. Farið verður yfir úrræði stjórnvalda og úrræðaleysi til að stýra landnotkun. Allir eru boðnir velkomnir í súpu og brauð í matsal Landgræðslunnar í Gunnarsholti og málþingið verður síðan í Frægarði.

Rótarýklúbbur Rangæinga hefur um nokkurt árabil haft fræðslu og umfjöllun um samfélagsmál héraðsins á stefnuskrá sinni. Klúbburinn hefur m.a. staðið fyrir ráðstefnum um orkumáli í Rangárþingi, ferðaþjónustu, landgræðslu og síðast en ekki síst um eldgosavá.  Þessi áhersla er í samræmi við markmið Fjórprófs Rótarýhreyfingarinnar;  „Er það satt og rétt er það drengilegt, eykur það velvild og vinarhug – er það öllum til góðs“.

Ráðstefnan er öllum opinog ekkert þátttökugjald. Nánari upplýsingar veitir Sveinn Runólfsson í síma 893-0830 og sveinn@land.is.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?