Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Elín Hjartardóttir Stolzenwald við undirritun samningsins.
Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Elín Hjartardóttir Stolzenwald við undirritun samningsins.

Rangárþing ytra og Flugbjörgunarsveitin á Hellu endurnýjuðu fyrr í vetur samstarfssamning til fjögurra ára vegna starfsemi sveitarinnar sem tryggir að starfsemi hennar verði áfram jafn öflug og verið hefur. Með samningnum er Flugbjörgunarsveitinni tryggðir fjármunir til starfseminnar sem nema 10.000.000 kr á tímabilinu.

Samningurinn felur í sér styrk til æskulýðs- og tómstundastarfs en Flugbjörgunarsveitin hefur haldið úti öflugu æskulýðs- og tómstundastarfi með ungliðadeildinni sem snýr að því að byggja upp og þjálfa unga björgunarsveitamenn, með reglubundnum æfingum og ferðum, til að vinna í hóp, leysa verkefni á við fyrstu hjálp, rötun, fjallamennsku og aðgerðarstjórn

Flugbjörgunarsveitin á Hellu heldur utan um, þjálfar og byggir upp, öflugt net sjálfboðaliða í björgunarstörfum sem geta tekist á við hin ýmsu verkefni sem upp koma á svæðinu, hvort sem það er vegna veðurs, náttúruvár eða aðstoð við ferðamenn. Flugbjörgunarsveitin mun taka að sér ýmis verkefni tengdum viðburðum á vegum sveitarfélagsins. Þá eru kaup á björgunarbúnaði sem og viðhald húsnæðis styrkt.

Það er sveitarfélaginu dýrmætt að hér sé starfrækt öflug björgunarsveit, skipuð einstaklingum sem ávallt eru tilbúnir til að bregðast við þegar útköll berast.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?