Samstarf er lykill að árangri - Fundaröð um aukin samskipti innan byggingageirans

Síðast liðið vor var haldin ráðstefna á Akureyri undir yfirskriftinni „Samstarf er lykill að árangri“. Til hennar var boðað til þess að ræða aukin samskipti innan byggingageirans á grunni nýsettra mannvirkjalaga, áhrif nýrrar byggingarreglugerðar og samhæfingu eftirlits. Ráðstefnuna sóttu hönnuðir, tæknimenn, iðnaðarmenn og eftirlitsaðilar, einkum af Norðurlandi, en Akureyrarbær var meðal þeirra aðila sem héldu ráðstefnuna.

Ráðstefnan heppnaðist í alla staði mjög vel og hefur nú verið ákveðið að efna til fundaraðar í haust þar sem fjallað verður um málefnið með svipuðu sniði. Fundir verði þannig haldnir í öllum landshlutum og með þátttöku sem víðast að.

Fundaröðin er haldin sameiginlega af Mannvirkjastofnun (MVS), Samtökum iðnaðarins (SI), Arkitektafélagi Íslands (AÍ), Félagi byggingarfulltrúa (Fb) og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Um er að ræða ráðstefnu á hverjum stað, þar sem flutt verða formleg erindi um stöðuna frá sjónarhóli verktaka (SI), hönnuða (AÍ), stjórnvalda (MVS) auk þess sem byggingarfulltrúi af viðkomandi svæði eða annar aðili úr sveitarstjórnargeiranum lýsir afstöðu manna heima í héraði. Pétur Bolli Jóhannesson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, var með slíkt erindi á fyrsta fundinum sem haldinn var í vor og í framhaldi af því urðu góðar umræður meðal ráðstefnugesta.

Stað- og tímasetningar fundanna hafa verið ákveðnar og eru sem hér segir:

  • Ísafjörður - 5. október 2012
  • Egilsstaðir - 19. október 2012
  • Sauðárkrókur -  26. október 2012
  • Stykkishólmur - 2. nóvember 2012           
  • Hella - 9. nóvember 2012
  • Reykjanesbær - 16. nóvember 2012
  • Reykjavík - 23. nóvember 2012

Sambandið vill hvetja sveitarstjórnarmenn, framkvæmdastjóra sveitarfélaga og aðra starfsmenn sem koma að byggingarmálum, að sækja fund á sínu svæði og taka tímann frá á umræddum degi. Reiknað er með að fundirnir hefjist kl. 13:00 og að þeim ljúki um kl. 17:00.

Sérstök ástæða er til þess að hvetja nefndarmenn í skipulags- og byggingarnefndum til þess að sækja fundinn og eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga beðnir um að koma þessum pósti áfram til hlutaðeigandi.

Stefnt er að vefútsendingu frá a.m.k. einum fundanna og að upptökur erinda verði í framhaldinu aðgengilegar á heimasíðu sambandsins.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og staði fundanna verða veittar síðar, en Tryggvi Þórhallsson, á lögfræði- og velferðarsviði sambandsins, tryggvi.thorhallsson@samband.is, sem er fulltrúi okkar í þessu verkefni, getur upplýst þá sem það kjósa frekar um þetta mál.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?