Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS bjóða samstarf á n.k. sumri

Við hjá sjálfboðaliðasamtökunum SEEDS erum farin að huga að undirbúningi næsta sumars. Á liðnu sumri áttum við farsælt samstarf við fjölmörg sveitarfélög á landinu og erum fús til að hefja samstaf við fleiri. Hjálögð er almenn kynning á starfsemi SEEDS.

 

SEEDS tekur á móti erlendum sjálfboðaliðum til þess að sinna fjölþættum verkefnum á sviði umhverfis-, menningar- og félagsmála og skipuleggur vinnubúðir um allt land í samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög.

Búðirnar standa alla jafna í tvær vikur, oftast með þátttöku 8-12 sjálfboðaliða. Samstarfsaðilinn (gestgjafinn) sér sjálfboðaliðunum fyrir fæði og húsnæði meðan á verkefninu stendur. Hópurinn annast sjálfur matreiðslu og svefnaðstaðan er yfirleitt svefnpokapláss. SEEDS sér um alla umsýslu og kemur hópnum til og frá áfangastað. Fyrir hópunum fer ávallt hópstjóri frá samtökunum. Jafnvel tveir ef um stóran hóp er að ræða. Hópstjórarnir hafa hlotið þjálfun á tveggja vikna námskeiði sem SEEDS stendur fyrir á vorin.

 

Verkefni sjálfboðaliðanna verða að fela í sér eitthvert fræðslu- eða menntunargildi svo sjálfboðaliðarnir öðlist nýja reynslu og þekkingu. Auk þess er mikilvægt að verkefnið sé á einhvern hátt til framdráttar fyrir samfélagið og að sjálfboðaliðunum séu ekki falin störf sem að öðru jöfnu einhverjum væri greitt fyrir að sinna.

 

Verkefnin sem sjálfboðaliðar á vegum SEEDS hafa tekið þátt í hafa verið mjög fjölbreytt. Mörg þeirra hafa falist í fegrun umhverfisins með hreinsun og gróðursetningu, önnur í bættu aðgengi fyrir ferðamenn með lagningu og viðhaldi göngustíga, svo eitthvað sé nefnt. Sjálfboðaliðar okkar hafa einnig aðstoðað við undirbúning og framkvæmd ýmissa hátíða og menningarviðburða.

 

Tilgangur og markmið SEEDS miðar að því að leiða saman fólk af ólíkum uppruna til að stuðla að gagnkvæmum skilningi þess og eyða fordómum. Þannig leggjum við okkar af mörkum til baráttu fyrir friði í heiminum, því við teljum að ein mikilvægasta forsenda friðar sé sú að fólk af ólíkum uppruna kynnist og deili reynslu sinni og viðhorfum.

 

Á vegum SEEDS hefur mikill fjöldi ungmenna hvaðanæva að úr heiminum komið til Íslands og er sívaxandi áhugi á að koma hingað. Það sem af er þessu ári hefur SEEDS skipulagt yfir 100 vinnubúðir víðsvegar um landið og tekið á móti rúmlega 1000 sjálfboðaliðum frá um 45 löndum. Samtökin eru alltaf á höttunum eftir nýjum samstarfsaðilum til að anna eftirspurninni, við hvetjum þig til að hafa samband við okkur ef þú hefur áhuga á samstarfi.

 

Með kærri kveðju f.h. SEEDS - Vala

__________________________


Valdís Gunnarsdóttir
Verkefnastjóri/Project Manager
-
SEEDS - Sjálfboðaliðar umhverfis landið
Grettisgata 3a
101 Reykjavík
Ísland
Tel + 354 771 3322
www.seeds.is
www.facebook.com/seedsiceland
www.facebook.com/volunteer.workcamps.iceland

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?