Skemmtilegt þorrablót hjá Leikskólanum á Laugalandi

Á bóndadaginn, fyrsta dag þorra héldu börn Leikskólans Laugalandi þorrablót.  Blótið var með hefðbundnum hætti þar sem fyrst voru flutt skemmtiatriði. Elstu börnin sýndu leikritið „Geiturnar fjórar“ og fóru í samkvæmisleikinn „Lilla“ með börnum og starfsfólki.  Næst elsti hópurinn sýndi myndir í iPadinum og sögðu frumfluttarar sögur með þeim og þriðji elsti hópurinn sá síðan um söngatriði og var að sjálfsögðu sungið um krumma. Í lok atriða var fjöldasöngur við harmonikku undirleik Grétars Geirssonar og svo var fjörugt ball og dansað. Að lokum var  snæddur hefðbundinn þorramatur.  Fyrir þorrablót höfðu börnin undirbúið sig og útbjó eldri hópur barnanna höfuðföt auk þess sem stúlkurnar vildu gleðja drengina og útbjuggu hálsbindi handa þeim sem þeir fengu afhent í upphafi dagskrár.  Í kjölfar þorrablótsins mun verða unnið með íslenska menningu í leikskólanum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?