Einar Grétar Magnússon hefur starfað með Björgunarsveitinni Dagrenningu í hart nær hálfa öld og veri…
Einar Grétar Magnússon hefur starfað með Björgunarsveitinni Dagrenningu í hart nær hálfa öld og verið fjallkóngur á Emstrum í 30 ár. Hér er hann með lamb sem björgunarsveitarmenn tóku upp í bíl sinn í eftirleitum á Emstrum. Bílstjórinn er Baldur Ólafsson. Mynd/Þorsteinn Jónsson

Skjalavarslan er skemmtilegt starf

Einar Grétar Magnússon, kennari og héraðsskjalavörður á Hvolsvelli, lætur ekki mikið fyrir sér fara, en fer þó meira en sýnist, eins og á við um marga hans líka. Síðastliðinn áratug hefur hann safnað saman og flokkað skjöl af ýmsu tagi, sem legið höfðu árum saman í bókakössum í geymslum og kjallaraherbergjum víða um sýsluna. Fundargerðir sveitarfélaga og óteljandi önnur skjöl og bækur eru nú komin á Skógasafn, vandlega skráð og flokkuð og aðgengileg þeim er á þurfa að halda. Einar Grétar stendur nú á sjötugu, löngu kominn á aldur eins og sagt er, og býr sig undir að setjast í helgan stein.

Bóndasonur úr Hlíðinni

Einar Grétar er frá Kotmúla í Fljótshlíð, sonur hjónanna Magnúsar Einarssonar og Ragnheiðar Guðmundsdóttur. Þau voru bændur á Kotmúla frá 1945 til 1972 er þau brugðu búi og fluttu á Hvolsvöll. Einar Grétar hafði þá lokið landsprófi frá Skógaskóla og var í kennaranámi í Reykjavík, sem hann lauk 1973. Eftir kennaranámið fékk hann kennarastöðu við sinn gamla skóla í Fljótshlíðinni.

„Ég byrjaði að kenna við barnaskólann í Fljótshlíð og var þar sex vetur. Eftir það kenndi ég í einn vetur í gagnfræðaskólanum á Selfossi og 1981 fékk ég svo kennarastöðu við gagnfræðaskólann á Hvolsvelli, sem 1996 var sameinaður barnaskólanum og varð þá grunnskólinn á Hvolsvelli. Þar kenndi ég til 2009 og hafði þá kennt samfellt við skólann í 28 ár. Í allt var ég því kennari í 36 ár, fyrir utan einn vetur sem ég tók mér frí, eftir veturinn á Selfossi, og tók mér árs leyfi 1992-1993 og kenndi þá við grunnskólann á Húsavík. Konan mín Benedikta Steingrímsdóttir er frá Húsavík og henni bauðst að taka að sér reksturinn á Hótel Húsavík í eitt ár og okkur fannst þetta gott tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn.“

Starf sem hentaði mér

„Árið 2011 bauðst mér starf við Héraðsskjalasafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga. Það var stofnað 1988 en það hafði ekki verið mikið skráð og flokkað af þeim gögnum sem ég tók svo við. Ég var ekki með menntun í tengslum við þetta starf aðra en þá reynslu sem ég hafði aflað mér sem kennari, en Björn Pálsson, fyrrverandi skjalavörður Héraðsskjalasafns Árnesinga kom tvisvar sinnum í tvær vikur í Skóga til að hjálpa mér af stað og það var góður skóli.

Safnið er með aðsetur í Skógum en mér bauðst að vinna að mestu leyti á skrifstofu sem Rangárþing eystra útvegaði hér á Hvolsvelli, auk þess sem ég hafði nokkuð frjálsan vinnutíma. Þetta hentaði mér vel vegna annarra starfa og áhugamála,“ segir Einar Grétar sem alla tíð hefur verið öflugur félagsmálamaður. Af því helsta má nefna að hann var í 30 ár gjaldkeri Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, auk þess að taka þátt í ýmsum öðrum störfum, og 2019 var hann gerður að heiðursfélaga í Hestamannafélaginu Geysi fyrir vel unni störf í þágu félagsins.

Gullmolar í einkasöfnum

„Ég hef alltaf haft gaman að ýmis konar grúski, þannig að í raun hefur starfið á skjalasafninu öðrum þræði verið áhugamál líka. Mikið af þeim gögnum sem ég hef flokkað eru vissulega þurr lesning, eins og funagerðarbækur og slíkt, en það dúkka alltaf upp gullmolar annað slagið sem er virkilega gaman að lesa. Við fáum töluvert af skjölum úr einkasöfnum og þar er oft að finna skemmtilegar sögur og frásagnir. Sem dæmi þá fengum við sent úr einkasafni Oddgeirs Guðjónssonar í Tungu endurminningar Vigfúsar Ísleifssonar á Flókastöðum, sem hvergi hafa verið birtar. Þar er nákvæm lýsing á húsaskipan á bænum og líka á leikjum barna frá þeim tíma sem Vigfús var að alast þar upp.

Þess má geta að einkaskjalasafn okkar er að mestu komið á vefinn og aðgengileg á www.einkaskjalasafn.is, sem er samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi. Önnur skjöl safnsins eru ekki veflæg enn sem komið er, en það er stefnt að því að þau verði það. Skráning þeirra er öll á rafrænu formi, það er að segja heiti þeirra og efni, og það er í undirbúningi að skanna sem mest á PDF form.

Síðastliðin tvö ár höfum við fengið styrk til að skanna inn fundagerðarbækur gömlu sveitarfélaganna í Rangárþingi og Vestur-Skaftafellssýslu. Það er þegar búið að skanna inn 10 þúsund blaðsíður og þær eru vistaðar hjá Héraðsskjalasafni Árnesinga undir www.myndasetur.is.“

Ansi margar blaðsíður

„Skjalasafninu berast um 40-50 afhendingar á ári og öll skjöl eru geymd á Skógasafni. Ég er búinn að fara víða og sækja kassa; hjá sveitarfélögunum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum. Í safninu eru um 300 hillumetrar. Frá Rangárþingi eystra eru um 7 hillumetrar og tæplega 100 öskjur, og frá Rangárþingi ytra eru um 4 hillumetrar eða um 50 öskjur, ef það skyldi segja einhverjum eitthvað um það magn sem um ræðir. Því miður hef ég ekki nákvæmar tölur yfir fjölda þeirra skjala sem ég hef flokkað, en það eru ansi margar blaðsíður í það heila.“

Lokasprettur á þorranum

Einar Grétar stendur nú á sjötugu og er því löngu kominn á aldur eins og sagt er. Hann hefur þó ekki verið á þeim buxunum að hætta að vinna, fyrr en nú. Búið er að auglýsa starfið laust til umsóknar og þegar hafa nokkrar álitlegar umsóknir borist. Einar er þó ekki alveg hættur og verður í „sérverkefnum“ eitthvað fram eftir næsta ári.

„Það er dálítið sem mig langar að klára áður en ég hætti alveg. Í febrúar og mars á næsta ári mun ég halda fundi í öllum gömlu sveitarfélögunum í Rangárþingi og Vestur-Skaftafellssýslu og kynna skjalasafnið. Þar mun ég líka kalla eftir gögnum frá hinum ýmsu félögum, svo sem kvenfélögum, búnaðarfélögum, slysavarnafélögum, og svo framvegis. Ég tel að þarna sé á ferðinni verðmætur arfur sem vert er að skrá og geyma. Ég geri ráð fyrir að þetta verði lokaspretturinn hjá mér hjá skjalasafninu og hlakka til, þetta verða áreiðanlega mjög skemmtilegir fundir. Þeir verða auglýstir í Búkollu og víðar þegar þar að kemur,“ segir Einar Grétar Magnússon að lokum.

Þessi pistill birtist í fréttablaði Rangárþings ytra sem nálgast má hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?