Skólaslit Laugalandsskóla 2013

Þann 27. maí síðastliðinn var Laugalandsskóla slitið við hátíðlega athöfn. Að venju flutti skólastjóri ræðu og drap á það helsta í starfi vetrarins og þakkaði nemendum, aðstandendum og starfsfólki skólans gott samstarf.

Þrír starfsmenn sem hættu störfum við skólann voru kvaddir sérstaklega. Það voru þau Ásta Kristjana Guðjónsdóttir kennari, Eyrún Jónasdóttir tónlistarkennari og Ólafur Andrésson skólabílstjóri en hann hefur ekið nemendum til og frá skóla síðan 1979.

Eydís Indriðadóttir oddviti Ásahrepps ávarpaði samkomuna og afhenti tveimur nemendum viðurkenningu fyrir hönd Ásahrepps – þeim Önnu Guðrúnu Þórðardóttur sem sigraði í ræðukeppni á skólaárinu og Írisi Þóru Sverrisdóttur en hún hlaut sérstök verðlaun dómnefndar í Stóru upplestrarkeppninni í apríl.

Margrét Rún Guðjónsdóttir formaður nemendaráðs Laugalandsskóla steig í pontu fyrir hönd nemenda í 10. bekk og fór í stuttu máli yfir skólagöngu bekkjarins, nafngreindi umsjónarkennara hans og sagði frá skemmtilegri útskriftarferð hópsins sem farin var norður í land. Að lokum þakkaði hún öllum sem að skólanum koma og öllum þeim sem hafa fylgt þessum góða hópi í gegnum grunnskólann.

Að lokinni ræðu nemendaráðsformanns fór fram útskrift nemenda í 10. bekk sem í vetur voru 13 talsins. Nú standa þessir einstaklingar á tímamótum í lífinu, búnir með grunnskólann og allir á leið í framhaldsnám í haust. Tveir nemendur í 10. bekk fengu sérstaka viðurkenningu fyrir ástundun og  námsárangur – Árni Páll Þorbjörnsson fyrir einstaklega góða ástundun í dönskunámi og Sigþór Helgason sem var með hæstu meðaleinkunn hópsins. Í lok útskriftar komu nemendur úr 1. og 2. bekk og færðu nýútskrifuðum nemendum rauða rós með kveðju frá skólanum.

Fyrir skólaslitin var sýning á handverki nemenda í Miðgarði og þar mátti sjá ýmsa fallega gripi og önnur verkefni frá nemendum. Tvö söngatriði voru á dagskránni. Anna Guðrún Þórðardóttir og Margrét Rún Guðjónsdóttir sungu við undirleik Eyrúnar Jónasdóttur. Að lokinni formlegri athöfn fengu gestir ís og kaffi áður en haldið var út í sumarið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?