Sprenging í byggingu íbúða á Hellu

Á síðustu tveimur árum hefur orðið sprenging í byggingu íbúða á Hellu. Ástandið var orðið þannig að gríðarleg eftirspurn skapaðist eftir þeim íbúðum sem settar voru á sölu og varð vart við skort á framboði snemma á árinu 2017. Fólk sem hugði sér til hreyfings og ætlaði að minnka við sig, selja stóra húsið sitt og fá sér minni íbúð, gat það ekki, þar sem skortur var á minni íbúðum. Því var ekki um eðlilega endurnýjun að ræða ásamt því að nýtt fólk fann sér heldur ekki stað til að búa á.

Verktakar sáu sér leik á borði og með samstilltu átaki þeirra og sveitarfélagsins , var byrjað á byggingum 80-90 m² íbúða í raðhúsum á Öldusvæðinu svokallaða, rétt fyrir neðan flugvöllinn á Hellu. Í dag er þegar búið að byggja 8 íbúðir við Sandöldu, 11 íbúðir við Skyggnisöldu og 12 íbúðir við Snjóöldu og er þá ekki talið þær íbúðir sem ekki tengjast þessu átaki. Sveitarfélagið hefur keypt 6 íbúðir af þessum rúmlega 30 íbúðum undir félagslega þjónustu sína og eru aðrar íbúðir seldar eða komnar í almenna útleigu. Jafnframt var lokið byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi við Guðrúnartún við dvalarheimilið Lund fyrir eldri íbúa samfélagsins.

Nú, þegar þetta er skrifað, er búið að úthluta 7 lóðum á Öldusvæðinu til viðbótar undir a.m.k. 27 íbúðir og eru verktakar í startholunum að hefja framkvæmdir. Það er stefna skipulagsyfirvalda að byrja ekki úthlutun á nýju svæði fyrr en a.m.k. 60 % núverandi svæðis er þegar orðið byggt og er því ekki langt að bíða að farið verði að úthluta lóðum í götunum Kjarröldu, Lyngöldu, Melöldu og Móöldu, en þar er gert ráð fyrir 65 – 80 íbúðum í mismundandi útgáfum einbýlis-, par- eða raðhúsa.

Þessi frétt kom út í fréttabréfi Rangárþings ytra sem kom út 10. desember. Nálgast má fréttabréfið í heild sinni hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?