Frumdrög yfirlitsmyndar af fullbyggðu skólasvæði
Frumdrög yfirlitsmyndar af fullbyggðu skólasvæði

Á fundi sveitarstjórnar 12. maí 2021 var lögð fram greinargerð faghóps um þróun skólasvæðis á Hellu. Þar kemur fram að undanfarin misseri hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmda við stækkun grunnskólans á Hellu og nýjan leikskóla ásamt aðstöðu fyrir tónlistarskóla.

Gerður var samningur við ARKÍS um vinnslu á frumdrögum byggðum á vinnu faghópsins. Á fundinum kynnti ARKÍS frumdrög að nýbyggingum í formi greinargerðar og teikninga auk þess sem gróf kostnaðaráætlun var lögð fram.

Vinnu við þróun skólasvæðisins hefur miðað vel áfram og þar er hugsað til framtíðar. Myndin varðandi hönnun og staðsetningu þeirra bygginga sem þarf að reisa til að svara eftirspurn og kröfum framtíðarinnar er orðin skýr.

Í kjölfarið á kynningu var lagt til að haldinn yrði opinn íbúafundur um málið og fór hann fram þann 1. júní síðastliðinn. Birgir Teitsson frá ARKÍS kynnti þar frumdrögin. Íbúafundurinn var haldinn í íþróttahúsinu á Hellu, streymt á Facebook og tekinn upp.

Upptöku má nálgast hér.

Góðar umræður áttu sér stað á fundinum og má finna spurningar íbúa og svör við þeim hér að neðan!

Nánari upplýsingar um verkefnið eru aðgengilegar hér.

Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér málið vel og hafa samband eða senda inn spurningar vakni þær við skoðun efnisins. Hægt er að hafa samband við sveitarstjóra í s: 4887000 eða á netfanginu ry@ry.is

Það er teiknuð skólahreystibraut á skólalóðinni. Hvers vegna er hún ekki sett niður á árbakka hjá Nesi eins og hitt sem er þar?

Ástæða þess að hugmynd að Skólahreystibraut er sett fram innan skólasvæðisins er þétt tenging er við skólastarfið. Keppni í skólahreysti er t.d. alfarið tengd grunnskólum landsins.

 

 Kemur til greina að fá álit frá reynslumiklum óháðum húsasmiðum í héraði varðandi þakgerðir og samsetningar? Fá þannig rýni á verkið í heild þannig að gagn verði að.

Öll ráð eru vel þegin. Þegar lengra dregur í hönnun bygginga verður leitað eftir rýni á einstök atriði – en til hvaða aðila verður leitað hefur ekki verið ákveðið ennþá.

 Er þetta endanleg staðsetning á íþróttavelli? Ef nei, hver er þá hinn möguleikinn?

Nei það sem kemur fram á frumdrögum bygginga og er í kynningunni er ekki endanleg staðsetning. Stefnt er að því að íþróttavöllur og framtíðaríþróttasvæði verði aðeins fjær skólasvæðinu þar sem er rýmra um.

 Verða hönnuðir verkefnisins skipaðir sem formenn bygginganefndar?

Fyrirkomulag byggingarnefndar hefur ekki verið ákveðið ennþá.

 Hver er áætlaður heildarbyggingarkostnaður með öllu?

Hann liggur ekki fyrir.

 Verður skipuð bygginganefnd? Hvenær? Hverja á að skipa og hversu margir verða í nefndinni?

Já það verður að öllum líkindum gert en hefur ekki verið ákveðið nákvæmlega hvernig það mun verða.

 Hver verður byggingastjóri?

Það hefur ekki verið ákveðið.

 Takk annars fyrir fundinn og að bjóða upp á bæði staðarfund og netfund á sama tíma. Ég sakna þess að hafa ekki fengið útgefna dagskrá fyrir fundinn eins og tíðkast almennt á fundum í stjórnsýslunni. Verður dagskrá gefin út fyrir íbúafundi í framtíðinni?

Tímasetning og fundarefni íbúafundarins lá fyrir með ágætum fyrirvara þ.e. auglýst í Búkollu og á heimasíðu sveitarfélagsins. Efni íbúafundarins var kynning og umræða á uppbyggingu skólasvæðis á Hellu. Hins vegar hefði mátt hafa nánari útlistun á dagskránni og er það gagnleg ábending.

 Lokast fyrir gangandi umferð milli íþróttahuss og núverandi gamla skóla??
Ef lokast verður eina leiðin milli hverfa um Þruðvang sem væri mikil afturför.

Smá viðbót.

Í dag höfum við möguleika að labba yfir íþróttavöllin, milli skóla og íþróttahúss og svo að sjálfsögðu Þrúðvanginn og árbakkann til að ferðast milli hverfa sem er daglegt brauð hjá mjög mörgum.

Mér finnst mjög afleitt ef skóla/íþróttavallar leiðin lokast gangandi og ég tala nú ekki um ef íbúar norðan skólans þurfa að koma um Þrúðvang-Þingskála til að komast í sund/íþróttir og í skólann og unglingarnir í strætó í Fjölbraut. Það munar um alla styttinga.

Svar: Það var mikil umræða bæði í faghópnum og eins meðal arkítektanna hvort ekki væri eðlilegt að skerpa betur á útmörkum skólalóðarinnar og takmarka umferð óviðkomandi um hana. Frumdrögin gera ráð fyrir að tengja elstu álmu grunnskólans við íþróttahúsið þannig að innangengt verði milli húsa. Umræðan er engu að síður opin ennþá og ekki búið að fastsetja þennan þátt. Þá er rétt að benda á að gert er ráð fyrir að almennur inngangur í sund, líkamsrækt og íþróttahús flytjist og verði um inngang á austurhlið hússins (þar sem áður var matsalur grunnskólans).

 Það kom fyrirspurn úr sal, verða áfram 2 skólar í sveitarfélaginu, henni var ekki alveg svarað, kemur vonandi skriflega síðar.

Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um annað en að áfram verði reknir þeir grunn- og leikskólar sem nú eru starfandi í sveitarfélaginu.

 Hver er kostnaðurinn kominn uppí
Þ.e kostnaður til arkitekta stofu?

Kostnaðurinn við frumdrög og frumhönnun er tæpar 13 mkr. Það er í samræmi við sérstakan samning þar um sem gerður var við Arkís í kjölfar verðkönnunar.

 Er fyrirhuguð göngubrú í gamla brúarstæðið?

Nú er unnið að frumhönnun deiliskipulags fyrir Bjargshverfið. Þar er gert ráð fyrir að koma upp göngu- og hjólabrú yfir Ytri-Rangá sem myndi tengjast því hverfi. Það er talið mikilvægt m.a. fyrir greiðar samgöngur gangandi og hjólandi að skóla- og íþróttasvæðinu í miðju þorpsins. Einnig að útivistarsvæðinu í Nesi.

 Var verið að rífa niður byggingar í Kársnesskóla? Og byggja upp aftur?

Byggingar Kársnesskóla voru rifnar árið 2019. Nú er búið að hanna þar inn ca 5750. M2 grunn og leikskóla fyrir um 400 nemendur, þar hefjast framkvæmdir nú í sumar.

V laga þak sem hallar saman + flatt þak. Er ekki komin nægilega slæm reynsla á þetta fyrirkomulag varðandi myglu og lekavandamála?

Arkítektarnir treysta sér til þess að leysa þessi mál svo það leki ekki. Þessa þætti þarf bara að meta áfram. Fer mikið eftir hvaða byggingarefni og aðferðir verði valdar í lokin. Áætlanir okkar ganga út á að reisa vandaðar byggingar sem standast kröfur um þessa þætti.

Eru engar verklegar framkvæmdir áætlaðar í gömlu Holta og Landsveit og Djúpárhreppi?

Stærstu framkvæmdirnar sem eru í gangi á þessu svæði snúa að vatnsveitunni en þar er verið að vinna eftir langtímaáætlun um endurnýjun lagna og bætt afhendingaröryggi m.a. með byggingu á stórum vatnstank í Fögrubrekku. Þá lýkur í sumar vinnu við bílaplan og aðkomu á Laugalandi. Einnig verður í sumar unnið áfram að vegabótum á Hólsárbakkavegi.

 Verður byggingakostnaður ekki töluvert meiri þegar verið er með mörg mishallandi þök sem liggja saman, meira sem þarf að púsla saman og tímafrekara ?

Þetta eru tillögur arkítekta til þess að fá dagsbirtu inn í frekar djúp rými. Tæknilegu lausnirnar eru alltaf áskoranir.

 Varðandi starfsmannaaðstöðuna, er hún hugsuð sameiginleg fyrir alla starfsmenn ? Ef svo er, væri ekki sniðugt að gera ráð fyrir fleiri kaffistofum?

Já, starfsmannaaðstaðan er hugsuð sameiginleg. Það er talið sérstaklega eftirsóknarvert að kaffistofan sé sameiginleg en þannig má búast við meiri samgangi starfsmanna sem stuðlað getur að heilbrigðu og góðu starfsumhverfi.

 Í tímaáætlun er gert ráð fyrir einu og hálfu ári í hönnun á íþróttavelli, hvað þarf að hanna ?

Tímalínan er sett upp á þann veg að færslunni á vellinum þarf að vera lokið áður en áfangi þrjú fer af stað. Það eru atriði eins og grundun og jarðeðlisleg atriði sem þarf að skoða. Við setjum upp tímalínu þannig að við höfum tímann fyrir okkur. Þetta er hluti af heildarhönnun á svæðinu, hönnunin fer fram innan þessa tíma. Það þarf að vera kominn nýr völlur, knattspyrnuvöllur með frjálsíþróttasvæði áður en farið verður í að byggja leikskóla.

 Það er áætlað að þrjú ár fari í færslu á íþróttavelli, hvað á að gera við íþróttastarf á meðan ?

Hugmyndin er að nýr völlur taki við áður en sá eldri er tekinn úr notkun.

 Það er hvergi skilgreint hvurslags íþróttavöll á að setja upp ? Hvernig á hann að vera ?

Nei það hefur ekki verið ákveðið. Árið 2018 skilaði vinnuhópur á vegum sveitarfélagsins af sér greinargóðri skýrslu um framtíðarsýn í íþróttamálum og samvinnu íþróttafélaga í Rangárþingi ytra. Skýrslan var unnnin með aðkomu fulltrúa frá Golfklúbbnum Hellu-Rangárvöllum, Hestamannafélaginu Geysi, Íþróttafélaginu Garpi, KFR, Skotfélaginu Skytturnar, Umf Framtíðin og Umf Hekla. Fyrsta verkefnið sem unnið var skv. þessari stefnu var viðbygging Íþróttahússins á Hellu en stefnan er nú í endurskoðun og kemur nýráðinn Heilsu-, íþrótta-, og tómstundafulltrúi öflugur að þeirri vinnu. Reiknað er með að mikilvægur hluti af þessari endurskoðun verði að skilgreina þarfir okkar varðandi nýjan íþróttavöll.

 Inngangurinn í leikskólann, er ætlast til þess að þegar maður kemur með börnin og sækir þau að maður fari með börnin í gegnum skólann ?

Það er reiknað með að gengið sé beint inn á viðkomandi leikskóladeild.

 Hvar verða matsalir fyrir leikskólabörn?

Gert er ráð fyrir að leikskólabörnin geti almennt matast inni á deildum en hugsunin sú að hægt verði að fara með t.d. elstu börnin inn í stóra matsalinn.

 Nú er allt þetta plan byggt út frá því að við erum að nota land sem ég veit ekki til þess að við eigum.

Skólasvæðið er allt á landi sem sveitarfélagið á en varðandi stækkun íþróttasvæðis þá hefur sveitarfélagið óskað eftir að kaupa land frá Helluvaði.

 Ef við getum ekki keypt landið, Helluvað, hvert er þá varaplanið ?

Gangi kaup okkar á Helluvaði ekki eftir af einhverjum ástæðum þá væri engu að síður hægt að flytja íþróttavöllinn til á eignarlandi sveitarfélagsins norðan skólasvæðisins. Það er hins vegar mun síðri kostur þegar til framþróunar þorpsins til lengri tíma er litið.

 Hvernig er aðkoma að íþróttavellinum hugsuð ? Bílastæði o.þ.h.

Það er ekki búið að hugsa þetta mjög langt en þó væri hægt að hugsa sér aðkomu að þessu svæði að hluta til beint frá skólasvæðinu og bílastæðunum þar og einnig norðan megin frá Helluvaðsvegi.

 Ég hef heyrt því fleygt fram að uppbygging á kostnaður við venjulegan íþróttavöll sé á bilinu 400-600 miljónir. Þar þarf væntanlega líka að vera með aðstöðu, búningaaðstöðu, sturtur og annað þvíumlíkt þar sem þetta er komið það langt frá Íþróttahúsinu. Fyrir utan auðvitað bílastæðin, hvar verða þau fyrir íþróttavöllinn ?

Ef litið er til uppbyggingar á nýju íþróttasvæði þá þarf örugglega að hugsa það í einhverjum viðráðanlegum áföngum. En mikilvægt er að takist að búa svo um hnúta að svæðið bjóði upp á möguleika til langrar framtíðar m.a. varðandi stærri uppbyggingu s.s. fjölnota íþróttahús.

 Hafið þið talið hornin á þessum húsum? Haldið þið að það verði ekki erfitt að passa nemendur þarna úti gagnvart barsmíðum og öðru ? Þarf bara ekki vanann mann til þess að passa þetta ?

Sérstaklega er litið til áhættuþátta eins og mögulegs eineltis við hönnun húsanna. Fólk er mjög meðvitað um þetta.

 Þessi gamli skóli, fyrsti skólinn, ætla menn að múra þetta inni? Gera menn sér ekki grein fyrir því að þetta sé bara kannski bara handónýtt hús. Er það öruggt? Ég man eftir því þegar ég var þarna að þarna var fúkkalyktin að drepa mann! Ég hef bara ekki nokkra trú á því að þetta hús sé í lagi, hafa menn ekkert hugleitt það að bara slá það niður? Þetta minnir mann á Landspítala ævintýri að byggja við eitthvað eldgamalt hús.

Gert er ráð fyrir að kennslustofurnar í elsta hluta grunnskólans verði látnar halda sér enda er stutt síðan að þær voru teknar í gegn og er þessi hluti talinn vera á ágætu ásigkomulagi. Gert er rá fyrir að nýbyggingin sé sérstæð bygging og því hafa báðar byggingar sérstæða útveggi. Hins vegar er áætlað að fjarlægja þann hluta sem áður hýsti m.a. kyndingu og slíkt norðan megin.

 Það er talað um að bæta göngustíginn yfir hæðina, er fyrirhugað að setja lýsingu á hann ?

Já, draumurinn er að ganga frá því en hvort það gerist í sumar er aðeins óvíst.

 Á Langasandinum, gangbrautin, hún er alveg skelfilega hættuleg. Bílar eru að taka fram úr á gangbrautinni. Það þarf að gera einhverjar úrbætur þar á. Þetta er svipað vandamál á Eyjasandinum.

Þessi ábending er mikilvæg og við munum gera ráðstafanir til að merkja gangbrautina betur allt til þess að brýna fyrir ökumönnum að sýna tillit og gæta öryggis.

 

Nánari upplýsingar um verkefnið eru aðgengilegar hér: www.ry.is/is/ibuar/skolar/throun-skolasvaedis-a-hellu

Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér málið vel og hafa samband eða senda inn spurningar vakni þær við skoðun efnisins. Hægt er að hafa samband við sveitarstjóra í s: 4887000 eða á netfanginu ry@ry.is

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?