Fossabrekkur í Rangárþingi ytra
Fossabrekkur í Rangárþingi ytra

Slagkraftur, stöðufundur ferðaþjónustu í Rangárþingi ytra var haldinn í fjarfundi seinnipart fimmtudags 12. nóvember en það var atvinnu- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins sem boðaði til fundarins.

24 ferðaþjónustuaðilar voru mættir til fundarins sem er frábær mæting.

Eiríkur Vilhelm Sigurðarson markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþingi ytra og Sólrún Helga formaður atvinnu- og menningarmálanefndar stýrðu fundinum. Í upphafi fundar var farið yfir stöðuna hjá þeim sem mættir voru.

Það kom fram að staða ferðaþjónustunnar er ekkert sérstök sem stendur. Sökum COVID hafa einhverjir þurft að loka þar sem það stendur ekki undir kostnaði hjá þeim að halda opnu. Tekjufall hjá sumum fyrirtækjum er allt að 90% á milli ára 2019 og 2020 svo staðan er alvarleg. Einhverjir hafa þó náð að halda opnu og halda uppi þjónustu á hótelum, veitingastöðum og í afþreyingu.

Það eru þó bjartari tímar framundan þar sem þróun á bóluefni virðist vera koma á góðan stað, raunsýnin segir okkur samt að næsta ár verður líka snúið.

Sérstakir gestir fundarins voru Friðrik Pálsson eigandi Hótel Rangár og Dagný Hulda Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Suðurlands.

Hótel Rangá lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu að þar kom upp COVID smit í ágúst. Friðrik Pálsson fór yfir það mál. Það sem raunverulega gerðist var það að gestur kom á hótelið, smitaður af COVID án einkenna, þessi gestur var vinmargur sem olli því að veiran dreifði sér víða. Strax hófst vinna við að rekja ferðir allra hótelgesta og var unnið í samstarfi við smitrakningarteymið frá því snemma á morgnanna þar til seint á kvöldin. Það tókst að rekja ferilinn og draga verulega úr dreifingu smitsins. Hótelið var sótthreinsað og svo opnað á ný. Eini tíminn sem hótelið hefur verið lokað frá því að faraldurinn hófst er tíminn sem það tók að sótthreinsa hótelið eftir þetta tilvik. Þetta er óskemmtileg lífsreynsla en það standa allir í þessari baráttu saman.

Markaðsstofa Suðurlands er að vinna frábært markaðsstarf og þegar COVID skall á var strax farið í það að hugsa út fyrir kassann til þess að bregðast við nýjum áskorunum. Markaðsstofan vinnur í nánu samstarfi við Íslandsstofu. Dagný sagði frá þeim verkefnum sem farið var að vinna að þegar COVID fór af stað og snéru mikið að markaðssetningu suðurlands fyrir íslendingum. Eftirtalin verkefni fóru af stað:

Hlutverk Markaðsstofunnar er að markaðssetja svæðið en hlutverk sveitarfélagsins og ferðaþjónustufyrirtækjanna er að vinna að upplifun gestanna. Ferðaþjónustufyrirtæki eru hvött til þess að taka þátt í starfi markaðsstofunnar.

Fréttir af starfi markaðsstofunnar má finna hér.  

Góðar umræður voru á fundinum en samhljómur var um að efla þyrfti enn frekar samstarf ferðaþjónustuaðila í sveitarfélaginu og þó það hljómi undarlega í eyrum sumra þá þurfum við ekki síst að kynna svæðið og hvað það hefur uppá að bjóða fyrir sjálfum okkur.

Markaðs- og kynningarfulltrúi mun fljótlega boða til annars fundar þar sem farið verður sérstaklega yfir þau verkefni sem framundan eru með það að markmiði að efla samstarf ferðaþjónustuaðila og þá mögulega velta upp hugmyndum að formgerðara samstarfi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?