Undanfarin misseri hefur borið mikið á lausagöngu hunda á Hellu en slíkt er með öllu bannað.
Margar kvartanir hafa borist sveitarfélaginu og mikið er rætt um málið innan samfélagsins. Algengt er orðið að hundar valdi ónæði og skemmdum sem er ólíðandi og í trássi við reglur sveitarfélagsins en þar kemur m.a. fram:
„Óheimilt er með öllu að láta hund ganga lausan innan marka þéttbýlis og á beitilöndum búfjár nema nytjahund þegar hann er að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundur skal annars ávallt vera í taumi utanhúss og í fylgd manneskju sem hefur fullt vald yfir honum. Hundeiganda er alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn. Leyfishafa ber að sjá svo um að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði eða raski ró manna.“
Í reglunum kemur einnig fram að skylda er að skrá alla hunda hjá sveitarfélaginu og greiða árlegt skráningargjald.
Sveitarfélagið hefur heimild til að handsama lausa hunda og færa í geymslu, veita áminningar vegna brota og til að banna eigendum sem sýna af sér ítrekuð eða alvarleg brot að halda hunda.
Frekari upplýsingar um skráningar hunda má fá hjá sveitarfélaginu í síma 4887000.
Hér fyrir neðan má lesa reglurnar í heild sinni og mikilvægt er að hundaeigendur kynni sér þær vel og fari eftir þeim.