Stracta og Rangárþing ytra skrifa undir lóðarleigusamning

Hreiðar Hermannsson, framkvæmdastjóri Stracta konstruktion ehf., og Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri Rangárþings ytra, skrifuðu þann 21. ágúst undir lóðarleigusamning til 75 ára vegna lóðar við Rangárflatir 4 en hún er um 15.000 fermetrar að stærð.

Rangárflatir 4 er nýlega stofnuð lóð sem staðsett er við útjaðar þéttbýliskjarna Hellu, sunnan hringvegar við Gaddstaðaflatir. Svæðið er skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði skv. aðalskipulagi sveitarfélagsins frá 16. desember 2010. Umrætt svæði var deiliskipulagt í framhaldi og samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra þann 1. febrúar 2013. Innan svæðisins er einnig skipulögð rúmgóð lóð fyrir bensínafgreiðslustöð og þjónustuskála sem laus er til úthlutunar.

Grunnhönnun hótelsins er í ætt við "Herragarðsstíl". Þannig tekur á móti gestum stórt og reisulegt hús þegar komið er á staðinn. Gistingin er öll í húsum sem eru á einni hæð, flest tengd aðalbyggingunni með glergöngum. Byggingarnar umlykja hótelgarð sem rammaður er inn af gistieiningum hótelsins en honum er ætlað að vera afdrep til afþreyingar og hvíldar. Rúmgóð útisvæði verða sett upp þar sem gestir geta setið og notið morgun- og kvöldsólar. Nokkrir heitir pottar verða á hverjum stað, útigrill og leiksvæði fyrir börn.

Um 130 hótelherbergi verða á einni hæð í blönduðum einingum. Í staðsteyptri aðalbyggingu er gestamóttaka, aðstaða til fundarhalda, setustofa/bar, eldhús og veitingasalir sem geta samtals tekið 320 gesti í sæti. Hluti af gistiframboði hótelsins er í stakstæðum húsum sem ekki er innangengt í frá aðalbyggingu. Þessi möguleiki er í boði í samræmi við niðurstöðu þarfagreiningar sem gerð var á vöntun á mismunandi tegundum gistirýmis. Um að ræða rúmgóð 2-4 manna herbergi sem gengið er inn í beint af lóð hótelsins. Hótelið leigir líka út 46 fm. parhús fyrir allt að 6 gesti.

Hefðbundin 2ja manna herbergi með baði eru í meirihluta. Þessi herbergi eru öll í húsum sem tengjast aðalbyggingu með glergöngum. Einnig er hótelið með eins og tveggja manna herbergi án baðs. Þessir mögleikar mæta þörfum þeirra sem leita eftir ódýrari gerð gistingar. Herbergin verða vel búin með öllum hefðbundnum þægindum.

Með því að byggja hótelið nærri þéttbýliskjarnanum hafa gestir aukna möguleika á að taka sér stutta göngu "í bæinn", skreppa í sund, á safn eða fara á veitingastað svo eitthvað sé nefnt. Hella verður skilgreint sem hluti af þjónustuframboði hótelsins. Stracta Hotels munu leita eftir samstarfi við þjónustuaðila sem selja afþreyingu til ferðamanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?