Jón Ragnar Björnsson formaður félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.
Jón Ragnar Björnsson formaður félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.

„Það er brjálað að gera hjá okkur“

Í Rangárþingi ytra er öflugt og fjölbreytt félagsstarf eldri borgara. Starfið er sameiginlegt fyrir alla sýsluna og heitir félagið Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu.

Jón Ragnar Björnsson er formaður félagsins og hann segir að það verði heilmikið um að vera hjá þeim í vetur. „Við erum til dæmis með öflugt starf í handverki, í postulínsmálun, keramik og útskurði - sem er mjög vel sótt. Við erum einnig með spiladaga einu sinni í viku þar sem fólk má spila hvað sem er en flestir spila þó venjulega vist.“

Það er ekki hægt að tala um félagsstarf eldri borgara í Rangárvallasýslu án þess að minnast á kórinn. „Við með mjög öflugan kór eldri borgara sem heitir Hringur. Við æfum einu sinni í viku og er mikið gaman hjá okkur. Við erum tæplega fjörutíu í kórnum.“

Eitthvað fyrir alla

Það má með sanni segja að félagsstarfið sé fjölbreytt en félagarnir láta sér ekki nægja handverk og söng heldur er passað að hlúa einnig vel að menningarlega þættinum. „Við erum með leiklistarklúbb og bókaklúbb. Svo förum við saman í leikhúsferð einhvern tímann yfir veturinn, til dæmis í uppsveitirnar,“ segir Jón Ragnar.

„Við erum með árshátíð sem er yfirleitt í október og er þá mikið fjör hjá okkur. Svo erum við með jólahlaðborð sem þykir alveg ómissandi. Einnig erum við með Góugleði á góunni og á sumrin förum við í ferðalög. Yfirleitt eru tvær eins dags ferðir og svo ein ferð sem er þrír, fjórir dagar - það er brjálað að gera hjá okkur,“ segir Jón Ragnar og hlær.

Allir velkomnir í félagið

Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu var stofnað árið 1993 og eru um 300 manns í félaginu. Að sögn Jóns tekur allt að helmingurinn þátt í einhverju af því sem er í boði hjá þeim. „Við viljum endilega fá fleiri inn í félagið til að geta eflt félagið enn frekar. Það geta allir gerst félagar en fólk hefur ekki atkvæðisrétt í félaginu fyrr en það er orðið sextíu ára plús. Og við viljum fá sem flesta sextíu plús í félagið.“

„Það sem gerir okkur mögulegt að vera með þetta öflugt starf er það að við fáum mikinn fjárhagslegan stuðning frá sveitarfélögunum í Rangárvallasýslu. Félagið nær yfir alla sýsluna og við fáum verulega góðan stuðning frá þessum sveitarfélögum, sem við erum mjög þakklát fyrir.“

Mikilvægur liður í að fólk einangri sig ekki

Jón Ragnar segir að öflugt félagsstarf eldri borgara skipti mjög miklu máli félagslega. „Þetta er mikilvægur liður í að fólk einangri sig ekki og loki sig ekki af. Svo erum við svolítið að berjast fyrir hreyfingu sem er svo mikilvæg fyrir okkur öll, andlega og líkamlega. Við dönsum til dæmis á hálfs mánaðar fresti og erum einnig með boccia. Við höfum líka staðið fyrir sundleikfimi á sumrin en svo standa sveitarfélögin hérna fyrir leikfimi um veturinn sem hefur þótt heppnast mjög vel.“

Jóni Ragnari líkar vel að vera eldri borgari á Hellu. „Ég get ekkert breytt því að vera orðinn eldri borgari en þetta er bara frábært - frábært umhverfi og frábært fólk. Það er mjög erfitt ímynda sér að þetta gæti verið mikið betra. Það vantar að vísu hérna, bæði á Hellu og Hvolsvelli, svona lífskjarna-aðstöðu. Sem sagt, litlar íbúðir þar sem fólk getur eldað og gert allt sjálft en líka sameiginlega aðstöðu þar sem er hægt að kaupa sér mat og hitta fólk. Okkur dreymir svolítið um að fá þetta af stað,“ segir Jón Ragnar að lokum.

Allar nánari upplýsingar um félagið má finna á www.febrang.net 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?