Dagný Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Suðurlands.
Dagný Jóhannsdóttir framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Suðurlands.

Árlegur samráðsfundur ferðaþjónustunnar í Rangárþingi ytra fór fram í gærkvöldi á Stracta Hótel Hellu en það er atvinnu- og menningarmálanefnd Rangárþings ytra sem stendur fyrir fundinum. Virkilega góð mæting var á fundinum og voru gestir fundarins úr öllum greinum ferðaþjónustunnar í Rangárþingi ytra.

Hér má sjá samantekt frá fundinum.

Ferðamenn í Rangárþingi ytra 2008-2017

Rögnvaldur Guðmundsson frá Rannsóknum og ráðgjöf ferðþjónustunnar kynnti nýja skýrslu um ferðamenn í Rangárþingi ytra 2008-2017 sem gerð var fyrir Rangárþing ytra. Í skýrslunni kemur m.a. fram að almennt er gestum að fjölga hlutfallslega meira í Rangárvallasýslu en á öllu landinu, einnig kom fram að þó gestum í Landmannalaugum hafi fjölgað gríðarlega koma hlutfallslega færri þangað nú en 2008. Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Örkynningar voru frá þremur ferðaþjónustuaðilum.

Strönd Restaurant

Jorge Munoz tók við rekstri staðarins í september á síðasta ári. Veitingastaðurinn Strönd er staðsettur á Strönd á Rangárvöllum í vallarhúsi Golfklúbbsins á Strönd. Á Strönd er lagt uppúr því að bjóða uppá mat úr héraði með alþjóðlegu ívafi (fusion). Veitingastaðurinn verður opinn í allan vetur alla daga frá 17:30 – 21:30 nema lokað á þriðjudögum og lokað frá 5. – 25. nóvember. Hægt er að opna fyrr fyrir hópa utan þess tíma ef bókað er fyrirfram.

Sími: 4878208 og 7722247
Netfang: strondrestauraniceland@gmail.com
Heimasíða: www.strondrestaurant.com og facebook.com/strondrestaurant

Buggy Xtreme

Jónas Fjalar Kristjánsson kynnti fyrirtækið sitt Buggy Xtreme sem stofnað var á þessu ári. Fyrirtækið býður uppá ferðir á kraftmiklum hágæða Buggy bílum og getur farið með allt að 5 manns í hverri ferð. Buggy Xtreme leggur mikið uppúr persónulegri þjónustu. Buggy Xtreme býður uppá ferðir í Þykkvabæjarfjöru, upp að Heklu í Landmannalaugar og á fleiri staði. Ferðirnar eru allt frá 2 klst uppí dagsferðir.

Sími: 7729922
Netfang: info@buggyxtreme.is
Heimasíða. www.buggyxtreme.is og facebook.com/buggyxtreme

Hellirinn að Hellum

Jóhanna Hlöðversdóttir kynnti hellirinn að Hellum sem er lengsti manngerði hellir á Íslandi. Að Hellum er boðið uppá skoðunarferðir með leiðsögn í hellana allt árið sem taka ½ - 1 klst. Á síðasta ári var opnuð salernisstaða við hellana sem bætti aðstöðuna til muna. Auk þess að bjóða uppá hefðbundnar skoðunarferðir hafa verið haldnir tónleikar, brúðkaup og aðrir viðburðir í hellinum og segist Jóhanna vera reiðubúinn að vinna með ferðaþjónustuaðilum að öllu sem þeim dettur í hug.

Sími: 8475015
Netfang: johanna@hellar.is
Heimasíða: www.hellar.is og facebook.com/hellnahellir

Markaðs- og kynningarfulltrúi

Markaðs- og kynningarfulltrúi sveitarfélagsins fór yfir hluta af þeim verkefnum sem hann hefur unnið að í samstarfi við atvinnu- og menningarmálanefnd og ferðaþjónustuaðila í Rangárþingi yta.

-          Sett hefur verið upp heimasíða í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands með yfirliti yfir ferðaþjónustuaðila í Rangárþingi ytra og er slóðin á hana www.visithella.is . Almennar upplýsingar um sveitarfélagið sem þar er að finna eru á ábyrgð markaðs- og kynningarfulltrúa en upplýsingar um einstaka ferðaþjónustuaðila eru á þeirra ábyrgð og geta þeir uppfært þær í samráði við Markaðsstofu Suðurlands.

-          Ferðaleiðir um Rangárþing ytra er verkefni sem fór af stað á þessu ári og hafa verið gefnar út tvær ferðaleiðir. Þær má nálgast hér. Ferðaþjónustuaðilar geta prentað út þær ferðaleiðir sem þeir kjósa að nota í A4 eða A3. Nokkur umræða skapaðist um hvernig væri best fyrir ferðaþjónustuaðila að koma leiðunum á framfæri og kom engin eiginleg niðurstaða í það. Rangárþing ytra mun þó til reynslu láta gera nokkrar afrifublokkir og dreifa til þeirra sem óska eftir þeim.

-          Kortagerð. Í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands er gefið út kortið South-West. Hægt er að nálgast rafræna útgáfu hér. Hægt er að nálgast prentuð eintök af kortinu hjá skrifstofu Rangárþings ytra á opnunartíma.

-          Annan hvern mánuð hittast ferða-, atvinnu-, markaðs- og kynningarfulltrúar á suðurlandi og bera saman bækur sínar. Markaðsstofan heldur utan um þessa fundi.

-          Markaðs- og kynningarfulltrúi er starfsmaður atvinnu- og menningarmálanefndar og þar koma margar hugmyndir. Ef ferðaþjónustuaðilar hafa hugmyndir að verkefnum sem sveitarfélagið gæti unnið að þá ekki hika við að setja sig í samband við markaðs- og kynningarfulltrúa.

-          Markaðs- og kynningarfulltrúi óskaði eftir ábendingum að verkefnum og einnig hvað betur mætti fara varðandi þau verkefni sem unnin hafa verið. Gott samstarf er lykillinn að árangri.

Markaðsstofa Suðurlands

Dagný Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar kynnti starf Markaðsstofunnar og kom þar inná m.a.  samvinnu við markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins og markaðsstofunnar sem hefur gefið góða raun. Síðasta ár hefur verið unnið að kortaseríu um Suðurland sem gefin er út af markaðsstofunni og hefur nú myndað glæsilega kortaseríu um suðurland. Nýjustu tölur sýna að rúmlega 60% skipuleggja íslandsferðina 6 mánuðum fyrir komu og 42% skipuleggja ferðina með 2 mánaða fyrirvara. Nýjustu kannanir sýna að Bandaríkjamenn og Bretar eru ánægðastir með dvölina hérlendis en Asíubúar eru óánægðastir. Heimasíða markaðsstofunnar www.south.is fékk 530.000 heimsóknir á síðasta ári og eru um 400.000 virkir notendur, þar af 20% sem nota hana reglulega. Markmiðið hjá markaðsstofunni er að minnka umfang prentaðs efnis og nota meira stafrænt. Fram undan hjá Markaðsstofunni er að að undirbúa fundarröð fyrir mismunandi faghópa innan ferðaþjónustunnar þannig að aðilar frá mismunandi svæðum Suðurlands fái vettvang til þess að hittast og bera saman bækur sínar. Einnig eru fram undan greinarskrif til þess að koma á framfæri jákvæðum fréttum af ferðaþjónustu á Suðurlandi sem örlítið hefur skort á. Markaðsstofa Suðurlands og Suðurland allt hlaut eftirsótt verðlaun fyrir að vera Outdoor activity destination of the year 2018! 

Takk fyrir frábæran fund,

Eiríkur Vilhelm Sigurðarson
Markaðs- og kynningarfulltrúi
Rangárþingi ytra

P.s. ef það eru einhverjar spurninga þá ekki hika við að hafa samband í s: 4887000 eða á netfanginu eirikur@ry.is

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?