Tilkynning til íbúa Rangárþings ytra vegna samkomubanns

Tilkynning til íbúa Rangárþings ytra vegna samkomubanns

Kæru íbúar,

stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins hefur lagt sig fram við það nú í dag og um nýliðna helgi að undirbúa viðbrögð og aðlaga okkur samkomubanninu sem nú hefur tekið gildi, vegna Covid-19.

Ljóst er að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðar að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda um samkomubann. Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta skollið á með stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða einingum sem við á.

Allir íbúar eru hvattir til að leita almennra upplýsinga um faraldurinn og viðbrögð við honum inni á https://www.covid.is – þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar sem gilda næstu fjórar vikurnar.

Helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið í Rangárþingi ytra nú þegar og gilda þar til annað verður ákveðið eru eftirfarandi:

Leikskólar:

Leikskólarnir Heklukot og á Laugalandi verða opnir næstu fjórar vikur eftir því sem aðstæður leyfa, en starfsemi og leikskólahaldið sjálft verður með öðru sniði sem kynnt hefur verið fyrir öllum foreldrum núna að afloknum starfsdegi í dag. Börnin verða í minni hópum og samgangur milli deilda mjög takmarkaður.

Grunnskólar:

Skólahald í grunnskólanum á Hellu og Laugalandsskóla verður með breyttu sniði sem þegar hefur verið kynnt fyrir foreldrum og forráðamönnum. Gengið er út frá því, samkvæmt tilmælum stjórnvalda, að í skólastofum, mötuneyti, skóladagheimili og skólabílum sé nemendum raðað með eins miklu millibili og unnt er og aldrei séu fleiri en 20 saman í hópi.

Þeir sem kjósa að hafa börnin sín heima á meðan að þetta ástand varir eru vinsamlegast beðnir um tilkynna það til skólanna og umsjónarkennari mun síðan vera í sambandi upp á áframhaldandi nám.

Tónlistarskóli: Starfsmenn Tónlistarskóla Rangæinga hafa í dag unnið áætlun fyrir kennslu næstu vikurnar. Forskólakennsla og aðrir hópatímar eru felldir niður fram yfir páska. Einstaklingskennslan verður öll sett yfir í fjarkennslu en svo vel vill til að allir kennarar skólans hafa nýverið farið í gegnum námskeið varðandi slíka kennslu. Kennarar skólans munu vera í nánu sambandi við nemendur og foreldra til þess að halda utanum heimanámið og æfingarnar.

Íþróttamiðstöð: Líkamsrækt á Hellu verður opin og sundlaugar á Hellu og Laugalandi verða opnar á hefðbundnum tímum en þó með skertri þjónustu og settar eru stífar fjöldatakmarkanir. Íþróttasalir á Hellu, Laugalandi og Þykkvabæ verða lokaðir.

Félagsmiðstöð verður lokuð þar til annað verður ákveðið og æfingar á vegum Umf. Heklu, KFR og Garps falla niður.

Félagsþjónustan mun standa sína vakt og eru skjólstæðingar félagsþjónustunnar hvattir til að hafa samband símleiðis eða í tölvupósti við starfsmenn til að fá frekari upplýsingar.

Í dag mánudag hafa foreldrar og forráðamenn skólabarna fengið ítarlegar upplýsingar frá skólastjórnendum um breytingar á skólastarfinu næstu fjórar vikurnar. Þess er óskað að allir fylgist vel með þessum tilkynningum frá skólunum um það hvernig tekið verður á móti börnum á morgun þriðjudag.

Nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman, sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þeim fyrirmælum sem boðuð hafa verið til að hefta covid-19 faraldurinn. Gleymum þó ekki brosinu, sýnum umburðarlyndi og verum eins hvetjandi og við getum í þessum fordæmalausu aðstæðum og munum að öll él birtir upp um síðir.

 

f.h. sveitarstjórnar og viðbragðsteymis Rangárþings ytra

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?