Tökum höndum saman gegn sóun

Vissir þú að á grenndarstöðvunum okkar hér í Rangárþingi safnast að jafnaði um 1.200 kíló af textíl í hverjum einasta mánuði? Þetta er talsvert magn þegar horft er til íbúafjölda og sýnir svart á hvítu hversu mikið af fatnaði og öðrum textíl við látum frá okkur.

Sveitarfélagið vill vekja athygli á átakinu „10 tonn“ sem verkefnið Saman gegn sóun stendur fyrir. Markmiðið er að hvetja landsmenn til að draga úr textílsóun, en Íslendingar kaupa mikið af fötum og henda því miður allt of miklu.

Þótt það sé vissulega gott að fólk sé duglegt að setja textíl í endurvinnslu eða endurnýtingu frekar en í almenna ruslið, þá leysir það ekki vandann eitt og sér. Umræðan þarf nefnilega að byrja fyrr – áður en við kaupum flíkina.

Við þurfum að spyrja okkur gagnrýnna spurninga:

  • Þarf ég virkilega á þessari flík að halda?
  • Get ég notað fötin sem ég á nú þegar lengur?
  • Er hægt að gera við gömlu uppáhaldsflíkina í stað þess að henda henni?

Besta leiðin til að minnka þessi 1.200 kíló sem safnast upp í hverjum mánuði er ekki aðeins að skila þeim rétt, heldur einfaldlega að draga úr neyslunni. Með því að vanda valið, kaupa vandaðri flíkur og nota þær lengur gerum við umhverfinu stóran greiða.

Við hvetjum íbúa Rangárþings til að kynna sér verkefnið á samangegnsoun.is og huga að því hvernig við getum minnkað textílfjallið okkar í sameiningu.