Tómas Haukur Tómasson ráðinn forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs Rangárþings ytra
Tómas Haukur Tómasson ráðinn forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs Rangárþings ytra

Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 12. desember var tekin ákvörðun um ráðningu í starf forstöðumanns Eigna- og framkvæmdasviðs Rangárþings ytra sem auglýst var á dögunum. Niðurstaðan var að ráða Tómas Hauk Tómasson í starfið og mun hann hefja störf frá og með 1. Janúar 2020. 

Tómas Haukur Tómasson er 55 ára húsasmíðameistari með byggingastjórarréttindi frá Mannvirkjastofnun. Hann tók sveinspróf í bæði húsa- og húsgagnasmíði og lagði stund á nám í Tækniskóla Íslands (nú Háskólinn í Reykjavík) þar sem hann tók áfanga í  teikniforritum, gerð verkáætlana og fleiru sem snýr að framkvæmdum. Tómas Haukur er kvæntur Hrafnhildi Karlsdóttir og á með henni 4 börn. Hann er búsettur í Kópavogi en á  rætur í Rangárþingi og hyggst flytja austur. Tómas Haukur rak eigið verktakafyrirtæki fram til 2005. Aðal verkefnin voru endurbætur og þjónusta við fyrirtæki (þar á meðal Tryggingamiðstöðina, SPRON og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna) ásamt nýsmíði. Eftir 2005 starfaði hann hjá Hönnun ehf síðar Mannviti verkfæðistofu og var í 3 ár við uppbyggingu álversins á Reyðarfirði. Þar var hann húsasmíðameistari og fylgdi eftir uppsteypu og klæðningum utanhúss ásamt því að vera aðstoðar byggingarstjóri seinni hluta framkvæmdanna. Eftir að því verki lauk vann hann við ýmis verkefni HRV og Mannvits við eftirlit og byggingarstjórnun ásamt kostnaðargreiningu og gerð útboðsgagna. Árið 2013 var hann leigður frá Mannvit til Reinertsen í Noregi þar sem hann starfaði sem byggingarstjóri fyrir verksmiðju með laxafóður. Árið 2014 var hann ráðinn til LNS Saga (síðar Munck) þar sem hann starfaði sem framleiðslustjóri í frágangsvinnu og uppsteypu og frágangi á tæknirýmum í jarðgöngum í Sjöskogen í Noregi. Um áramótin 2015 var hann aftur fenginn heim til að vinna við lagningu gufulagnar fyrir Hellisheiðarvirkjun. Á vordögum 2015 var hann settur sem byggingsarstjóri á stöðvarhúsi Þeistareykjavirkjunar ásamt því að sjá um innkaup á efni til framkvæmdanna ásamt samningum við birgja. Haustið 2016 var hann fenginn til að sjá um tæknileg innkaup þvert á verk fyrir flest verk Munck og samninga við erlenda byrgja. Hann hefur allan sinn feril starfað við byggingariðnað, rak eigið verktakafyrirtæki með allt að 5-7 starfsmönnum, var starfsmaður verkfræðistofu og sem starfsmaður hjá stóru verktakafyrirtæki við verkefnastjórnun. Hann hefur aflað sér mikillar reynslu við framkvæmdir sem og endurbætur ásamt því að vera í eftirlitshlutverki fyrir verkfræðistofu. Einnig hefur hann reynslu af verkefnastjórnun við stór og smá verkefni ásamt samningum við birgja og verktaka, ásamt því að standa að gerð tilboða. Þess má einnig geta að Tómas Haukur hefur starfað í Hjálparsveit Skáta Kópavogi frá 1984 og verið starfandi í Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni frá upphafi og komið að flestum útköllum sem alþjóðasveitin hefur farið í. 

Í greinargerð með ákvörðuninni segir: Starfið var auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Dagskránni og Búkollu og á heimasíðu Rangárþings ytra í október 2019 með umsóknarfrest til 1. nóvember 2019. Umsækjendur voru 10 talsins en einn dró umsókn sína til baka eftir að umsóknarfrestur rann út. Umsóknir voru flokkaðar með tilliti til þess hversu vel umsækjendur uppfylltu menntunar- og hæfniskröfur og ljóst að mjög góðar umsóknir lágu fyrir. Í auglýsingu um starfið var tekið fram að leitað væri eftir öflugum einstaklingi sem væri tilbúinn að takast á við fjölbreytt og krefjandi starf. Sett var skilyrði um að viðkomandi hefði þekkingu og reynslu af rekstri, verkstjórn og áætlanagerð. Þá var gerð krafa um menntun sem nýtist í starfi og einnig áréttað að háskólamenntun væri ákjósanleg. Þá yrði viðkomandi að hafa góða þekkingu á upplýsingatækni og fjárhagsbókhaldi auk þess sem þekking og reynsla í verkefna- og mannauðsstjórnun væri kostur. Önnur atriði sem lögð voru til grundvallar voru m.a. þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum, frumkvæði og metnaður til að ná árangri og skipulagshæfileikar og nákvæmni í vinnubrögðum.

Eftir yfirferð og kynningu umsókna í sveitarstjórn þann 15. nóvember 2019 var ákveðið að bjóða öllum 9 umsækjendum til viðtals þann 19-20 nóvember 2019. Viðtölin tóku Björk Grétarsdóttir oddviti, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri. Umsækjendur mættu til viðtals á Hellu og hvert viðtal tók allt að 1 klst. Í kjölfar samtala var sveitarstjóra falið að hafa sambandi við samstarfsaðila úr fyrri störfum og var það gert fyrir þrjá þeirra umsækjenda sem þóttu hæfastir til að gegna starfinu að viðtölum loknum. Starfshópurinn hittist aftur á fundi þann 28 nóvember 2019 og fór yfir stöðu málsins og fólu sveitarstjóra að eiga aftur viðtal við þann umsækjanda sem hæfastur þótti til starfans – það viðtal fór fram 29. nóvember 2019. Það var samdóma álit þeirra sem viðtölin tóku að hæfastur til að gegna starfinu væri Tómas Haukur Tómasson. Samstarfsaðilar úr fyrri störfum gáfu honum mjög góða umsögn og mæltu eindregið með að hann yrði ráðinn til að gegna starfinu. 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?