Ullarvikan 2.-9. október 2022

Ullarvika á Suðurlandi 2022 – South Iceland Woolweek – verður haldin 2.-9. október 2022. Miðstöð ullarvikunnar verður í Félagsheimilinu Þingborg í Flóa og megindagskráin fer þar fram. Boðið verður upp á námskeið í handverki og fengnir til þess kennarar frá m.a. Íslandi, Skotlandi, Noregi og Bandaríkjunum.

Skráning á námskeið hefst 2. september og upplýsingar má fá með því að smella hér. 

Kynnið ykkur dagskrána á www.ullarvikan.is 

Á fimmtudegi, föstudegi og laugardegi ullarvikunnar verður opin kaffistofa í Þingborg, þar sem gestum gefst kostur á að setjast niður, fá sér kaffi og stunda sitt handverk. Það verða fyrirlestrar og opin hús á ýmsum stöðum þar sem boðið verður upp á ókeypis leiðbeiningar í prjóni, hekli og öðru sem viðkemur vinnu úr ull.

Settur verður upp markaðsdagur á laugardegi ullarvikunnar, þar mun aðilum sem tengjast handverki, ull og sauðfé gefast kostur á að kynna sín fyrirtæki og framleiðslu.

Þá verður hægt að fylgjast með rúningi á vegum Uppspuna smáspunaverksmiðju í Lækjartúni, ullarmat og áframhaldandi vinnslu ullarinnar í band. Gestum gefst einnig kostur á að kaupa sér reyfi og annaðhvort fá unnið band að eigin vali eða vinna það sjálfir.

Litasýning verður á lifandi fé í Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra og þar verða kynnt hin ýmsu litbrigði íslenska fjárins.

Boðið verður upp á námskeið af ýmsu tagi, m.a. í prjóni, hekli, spuna, litasamsetningum í prjóni, jurtalitun, þæfingu, gerð uppskrifta og fleira.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?