Umferðaröryggi á Hellu bætt í sumar

Mikið hefur verið rætt um umferðaröryggi og of hraða umferð bíla um Helluþorp. Íbúar hafa kallað eftir úrbótum og sveitarfélagið hefur farið yfir stöðu mála og lagt fram áætlun um úrbætur.

Á síðasta fundi framkvæmda- og eignanefndar var eftirfarandi bókað: 

„Nefndin samþykkir að merktar verði gangbrautir á eftirfarandi stöðum í sumar:
Heiðvangur/Þingskálar, Eyjasandur/Langisandur, Langisandur/Dynskálar, Eyjasandur/Langalda, Þrúðvangur/Bolli og Freyvangur í framhaldi af göngustíg yfir hól. Einnig verður komið fyrir léttri hraðahindrun á Þrúðvangi á mót við Nes og fyrsti áfangi nýrrar gangstéttar lagður með Þrúðvangi frá Hellubíó í átt að Nesi.“

Vonin er að þetta verði til mikilla bóta fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en sveitarfélagið vill hvetja bílstjóra til að virða hámarkshraða og aka með mikilli gát um þorpið. Nú fer í hönd sá tími sem mestur fjöldi barna er úti við leik og hjólandi um þorpið og mikilvægt að allir hafi augun opin við aksturinn.