Yfirlit yfir þjónustu stofnana sveitarfélagsins frá og með 4. maí 2020

Yfirlit yfir þjónustu stofnana sveitarfélagsins frá og með 4. maí 2020

Stefnt er að afléttingu samkomubanns í áföngum frá og með 4. maí í samræmi við auglýsingu Heilbrigðisráðherra frá 21. Apríl 2020. Áfram gilda takmarkanir um hámark 50 manna samkomur og 2 metra öryggisfjarlægð milli fólks. Þá er áfram lögð áhersla á að fylgja reglum um handþvott og sótthreinsanir til að lágmarka smithættu. Hér má finna yfirlit yfir þjónustu stofnana sveitarfélagsins frá og með 4. maí 2020.

Leikskólar: Starf á leikskólunum Heklukoti og á Laugalandi færist til eðlilegs horfs á ný frá og með 4. maí og öll börn og starfsmenn mæta til leiks. Áfram verður fylgt sérstökum varúðarreglum varðandi handþvott, hreinlæti og sótthreinsun.

Grunnskólar: Takmarkanir á skólahaldi falla úr gildi frá og með mánudeginum 4. maí. Þá hefst skólastarf aftur með eðlilegum hætti þar sem stundaskrá er fylgt og allar greinar kenndar, m.a. íþróttir og sund. Skólaslit verða þó með breyttu fyrirkomulagi sem verður kynnt síðar. Tveggja metra reglan gildir ekki um nemendur en starfsfólki ber að virða hana sín á milli eins og kostur er. Áfram verða sóttvarnarráðstafanir í skólum og munu þeir fylgja viðbragðsáætlunum sínum varðandi mögulegt smit. Takmarkaður aðgangur fullorðinna einstaklinga á enn við í skólunum.

Tónlistarskóli: Takmarkanir á skólahaldi falla úr gildi og kennarar mæta til starfa með eðlilegum hætti og kennsla færist að mestu í venjubundið form.

Bókasöfn: Takmarkanir á opnunartíma bókasafna falla úr gildi.

Íþróttamiðstöð: Íþróttastarfið fyrir leikskóla- og grunnskólabörn hefst að nýju, bæði úti og inni og eins fer skólasundið af stað. Ekki er gert ráð fyrir að foreldrar fylgi börnum sínum á æfingar og ekki er gert ráð fyrir áhorfendum á æfingum eða íþróttakappleikjum. Áfram er ekki um að ræða íþróttir fyrir fullorðna né sund. Þá er líkamsrækt lokuð áfram.

Félagsþjónustan: mun standa sína vakt og eru skjólstæðingar félagsþjónustunnar hvattir til að hafa samband símleiðis eða í tölvupósti við starfsmenn til að fá frekari upplýsingar.

Þjónustumiðstöðin: starfsemin færist í eðlilegt horf.

Sorpstöð: Reiknað er með óbreyttri sorphirðu skv. Sorphirðudagatali og móttökustöðin á Strönd er opin eins og vanalega.

Skrifstofa: Afgreiðsla opnar og starfsemin færist í eðlilegt horf en áfram er hugað að 2 metra reglu. Fjarfundir verða áfram nýttir eins og kostur er.

Félagsmiðstöð: opnar og æfingar á vegum Umf. Heklu, KFR og Garps fara af stað.

Námsver í Miðjunni á Hellu opnar en 2 metra reglan er í gildi.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?