Úrsögn úr embætti Skipulags-og byggingarfulltrúa Rangárþings bs.

Á stjórnarfundi í embætti Skipulags-og byggingarfulltrúa Rangárþings bs., 2. apríl sl., var lögð fram tillaga þess efnis að Rangárþing ytra segði sig úr byggðasamlaginu.  Í framhaldinu var óskað var eftir viðræðum samstarfssveitarfélaganna til að vinna að lausn málsins. Bæði meiri- og minnihluti sveitarstjórnar Rangárþings ytra styður ákvörðunina.

Sveitarfélögin í Rangárvallasýslu; Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Ásahreppur stofnuðu byggðasamlag um rekstur embættis skipulags- og byggingarfulltrúa árið 2007. Fulltrúar aðildarsveitarfélaganna hafa fundað reglulega um reksturinn síðan í desember 2011 vegna hugmynda um endurskipulagningu á embættinu, m.a. vegna hagrænna þátta.  Þessar viðræður skiluðu engum árangri.

Embætti Skipulags- og byggingarfulltrúa hefur vegið þungt í rekstri Rangárþings ytra síðustu ár.  Þungi verkefna embættisins hefur legið í Rangárþingi ytra allt frá stofnun þess, þó svo sveiflur hafi verið milli ára.  Ekki er fyrirséð breyting á þessari þróun og því afar mikilvægt að sátt sé um starfsemina.

Hjá Rangárþingi ytra er unnið að skilgreiningu starfa innan stjórnsýslunnar vegna þessara breytinga og í leit að auknu rekstrarhagræði og bættri þjónustu við íbúa og hagsmunaaðila.  Auglýst verður, svo fljótt sem verða má, eftir starfsmanni til að sinna verkefninu ásamt ýmsum öðrum sérfræðiverkefnum sem sveitarfélagið hefur keypt utanaðkomandi þjónustu til.

Góð sátt er milli samstarfssveitarfélaganna vegna þessara breytinga og unnið er að því að klára frágang vegna þessa innan eðlilegs tímaramma.

Guðfinna Þorvaldsdóttir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?