Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd kom saman 6. maí 2025 til að úthluta styrkjum í fyrri úthlutun 2025 úr Menningarsjóði Rangárþings ytra.
Níu umsóknir bárust að upphæð samtals 3.305.000 kr. en til úthlutunar voru kr. 625.000.
Nefndin vill þakka öllum sem sendu inn umsókn en um var að ræða mjög fjölbreytt og spennandi verkefni.
Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni eru:
„Innst inni“ – Dana Ýr Antonsdóttir: kr. 200.000
Um verkefnið:
Innst inni er nýr íslenskur söngleikur saminn af tveimur konum í Rangárþingi. Öll tónlistin er frumsamin og hluti hennar hefur ekki komið út. Umfjöllunarefnið er tengsl milli fólks, leitin að þeim og leiðir til að skapa þau. Hvernig það tekst og tekst ekki og hversu langt manneskjan er tilbúin að seilast til að tilheyra. Í gegnum þessa sögu er tekist á við ýmsar áskoranir mannlegs lífs, foreldrahlutverkið, ofbeldi í nánum samböndum en ekki síst ástina og vináttuna. Allir þátttakendur og listrænir stjórnendur sýningarinnar eru úr Rangárvallasýslu. Margir þeirra hafa starfað við tónlist, dans og leiklist fjarri heimahögunum en munu nú sameina krafta sína til þess að skapa nýtt verk í heimabyggð.
„Fólkið í Rangárþingi“ Arilíus Marselínuson – 200.000 kr.
Um verkefnið:
Verkefnið snýst um útgáfu bókar sem ber titilinn „Fólkið í Rangárþingi“, safn svarthvítra portrettmynda sem fanga einstaklingana sem móta samfélagið okkar. Með myndunum verða textar og ljóð eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur, rithöfund í Rangárþingi, sem lýsa daglegu lífi þeirra. Bókin mun varpa ljósi á kennarana sem mennta börnin okkar, starfsmennina sem safna ruslinu okkar, bakarana sem baka brauðið okkar, leiðtogana sem stýra bænum okkar og vélvirkjana sem halda bílunum okkar gangandi. Þetta verkefni er virðingarvottur til þessara nauðsynlegu en oft ósýnilegu einstaklinga og gefur þeim rödd til að segja sínar sögur.
„Syngjum saman á Hellu“ – Sólrún Bragadóttir: 150.000 kr.
Um verkefnið:
Sólrún söngkona, búsett á Hellu, er á tónleikaferðalagi með Jóni Sigurðssyni píanóleikara og datt í hug að bjóða góðum gestum að vera með á fyrstu tónleikunum á Hellu. Veita fallegum röddum á svæðinu tækifæri á að skína. Dagskráin verður fjölbreytt þar sem sungnar verða margar klassískar perlur í einsöng og tvísöng, þjóðvísur og söngleikjalög. Markmiðið er að virkja áhuga á klassískum söng og veita innsýn í möguleikana á að flétta saman stíltegundum í söngtónlist. Einnig að gefa tónlistarfólki á svæðinu möguleika á að koma listfengi sínu á framfæri.
„Óður til ljóðsins“ – Einar Þór Guðmundsson: 75.000 kr.
Um verkefnið:
Í þessu verkefni tileinkum við okkur að kynna fyrir yngri kynslóðum og foreldrum klassíska ljóðsönginn. Við munum fara með þessar kynningar í Tónlistarskóla Árnesinga og Tónlistarskóla Rangæinga. Um er að ræða tvenna tónleika þar sem ljóðasöngur er í aðalhlutverki. Fluttar verða fegurstu perlur klassíska ljóðasöngsins eftir tónskáld svo sem Schubert, Liszt og Faure en jafnframt verða flutt sönglög eftir nýrri höfunda svo sem W.Williams, Barber, Copland og Ives. Markmiðið er að halda á lofti og kynna þetta frábæra listform sem ljóðasöngur er fyrir áheyrendum sem hafa e.t.v. ekki haft svo auðveldan aðgang að slíkum tónleikum, en ávinningurinn væri sannarlega fólginn í að auðga tónlistarupplifun almennings.
Nefndin hlakkar til að fylgjast með framgangi þessara áhugaverðu verkefna og hlakkar til að sjá þau verða að veruleika.
Vert er að ítreka að þau sem hlutu ekki styrk að þessu sinni geta sótt um aftur í seinni úthlutun sjóðsins sem verður í haust.