Mynd af tónleikum Radda úr Rangárþingi sem fram fóru á Stracta Hótel Hellu í tengslum við Töðugjöld …
Mynd af tónleikum Radda úr Rangárþingi sem fram fóru á Stracta Hótel Hellu í tengslum við Töðugjöld í ágúst.

Tvö verkefni í Rangárþingi ytra hlutu styrk og eru þau bæði í flokki menningarverkefna. 

Verkefnin eru: 

Góða nótt - Vögguvísur í heimabyggð - Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir - 500.000 kr. 
Góða nótt, vögguvísur í heimabyggð er tónleikaröð sem fram fer á Selfossi, Hellu og Hvolsvelli í lok apríl. Efnið verður nýútgefið og hentar fólki á öllum aldri og af öllum kynjum. Gestir á öllum aldri geta mætt í náttfötum eða kósýgalla, með teppi og kodda og jafnvel lokað augunum á meðan þeir hlusta. Markmiðið er að gleðja, auka vellíðan, skapa ró og efla tengsl.

Raddir úr Rangárþingi (ytra) - Menningarfélagið Kári í jötunmóð - 500.000 kr.
Tónleikar þar sem Raddir úr Rangárþingi ytra munu hljóma í eyrum tónleikagesta undir forystu Glódísar Margrétar Guðmundsdóttur.

Frétt af www.sass.is

Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnu og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingasjóði Suðurlands. Um er að ræða síðari úthlutun sjóðsins árið 2022. Umsóknir voru samtals 90, í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna bárust 28 umsóknir og 62 í flokki menningarverkefna.

Að þessu sinni var 32,6 m.kr. úthlutað, 13,1 m.kr. í flokk atvinnu og nýsköpunar og 19,5 m.kr. í flokk menningar, til samtals 58 verkefna. Samþykkt var að veita 14 verkefnum styrk í flokki atvinnu og nýsköpunar og 44 verkefna í flokki menningarverkefna.

Hæsta styrkinn í flokki atvinnu og nýsköpunar hlaut að þessu sinni Langa ehf. fyrir verkefnið Afurðagerð og vörumerkjaþróun fyrir lífefnavinnslu að upphæð 2 m.kr., markmið verkefnisins er þróun á næringaríkum neytendavörum sem innihalda kollagen og önnur lífefni sem verða framleidd í nýrri verksmiðju í Vestmannaeyjum.

Í flokki menningarverkefna hlaut Home Soil ehf. fyrir verkefnið Ástin sem eftir er (seinni hluti) styrk að upphæð 1. m.kr., markmið verkefnisins er að gera kvikmynd í fullri lengd, sem mun stuðla að fjölbreyttu og öflugu menningarlífi.

Þá hlaut Góli ehf. fyrir verkefnið Páskatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands 2023 styrk að upphæð 1. m.kr., markmiðið er að halda páskatónleika Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands í Selfosskirkju í byrjun apríl nk. ásamt gestum.

Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?