Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps

Guðni G. Kristinsson veitustjóri við hið nýja dæluhús í Fögrubrekku í landi Hjallanes.
Guðni G. Kristinsson veitustjóri við hið nýja dæluhús í Fögrubrekku í landi Hjallanes.

Vatnsveitur sinna því mikilvæga hlutverki að koma hreinu neysluvatni til fyrirtækja og heimila í landinu. Neysluvatn er á margan hátt okkar mikilvægustu matvæli. Heilbrigði fólks í landinu er því háð að vatnsveitur skili til þeirra hreinu vatni og gott neysluvatn er einnig fyrsta forsenda þess að annar matvælaiðnaður gangi, hvort sem um er að ræða grunnframleiðslu eins og t.d. í fjósum og sláturhúsum eða framleiðslufyrirtæki eins og bakarí og veitingahús.

Vatnsveita samanstendur af ýmsum þáttum sem stuðla að því að vatnið komist á leiðarenda hjá neytanda og að mörgu þarf að hyggja. Áður en vatnsból er virkjað þarf til dæmis að huga að vatnafari svæðisins og grunnvatnsstraumum.

Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps sér íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélögunum fyrir köldu vatni með gríðarlega umfangsmikilli vatnsveitu sem teygir anga sína frá Þjórsá í vestri, að Brúarlundi í norðri, að Eystri-Rangá í austri og í Þykkvabæ í suðri.

Miklar framkvæmdir hafa verið síðustu tvö ár tengdar Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps til þess að auka afhendingaröryggi vatns.

Eitt af aðal vatnstökusvæðunum er í Lækjarbotnum en tekið er vatn í 8 vatnsbólum að auki. Lagnir í jörðu eru um 400 km og síðastliðið ár hafa verið dregnir niður 13 km metrar til viðbótar af stofnlögnum í sverleika 90-180mm. Þessar nýju lagnir treysta m.a. afhendingu vatns í Landsveit, Holtum og Ásahrepp. Í Fögrubrekku í landi Hjallaness hefur verið reistur myndarlegur 400 m3 steinsteyptur tankur með dæluhúsi.

Dælur eru staðsettar á einum 14 stöðum, allt frá litlum þrýstiaukadælum upp í 3-4 kraftmiklar dælur á hverjum stað.

Unnið hefur verið að því að bæta afhendingu vatns til Þykkvabæjar með því að auka dæluafkastagetu frá Selalæk og Djúpósi. Með þessu móti vex afhendingaröryggi vatns til Þykkvabæjar til mikilla muna.

 

 

Ábending frá Vatnsveitunni

Leki úr kerfinu er mjög slæmur og hefur áhrif á afhendingaröryggi vatns.

Ef einhvers staðar lekur vatn útúr kerfinu þá hefur það áhrif á alla notendur.

Mikilvægt er að fylgjast með því að lagnir séu í lagi og á það helst við um brynningarskálar fyrir búfé og vatn í sumarhúsum, sérstaklega eftir frostakafla.

 

Fleiri myndir eru aðgengilegar hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?