Viljayfirlýsing undirrituð

Viljayfirlýsing undirrituð
Rangárþing ytra, EAB New Energy GmbH  og EAB Ný orka ehf undirrituðu í dag  viljayfirlýsingu um samstarf á sviði vindorkunýtingar.

EAB New Energy er þýskt einkahlutafélag sem starfar á sviði undirbúnings, skipulagningar, byggingar og reksturs vindorkugarða um allan heim. EAB íhugar nú fjárfestingar í endurnýjanlegri orku á Íslandi og telur Rangárþing ytra áhugaverðan kost í þeim efnum. EAB Ný orka, dótturfélag EAB á Íslandi mun hafa umsjón með uppbyggingu vindorkugarða og starfsemi fyrirtækisins hér á landi.

EAB leggur áherslu á að vindorkuverkefnin stuðli að bættum hag samfélagsins og íbúa á svæðinu. Með auknu raforkuframboði skapist ný tækifæri og störf í sveitarfélaginu sem skili sér í varanlegri styrkingu innviða þar sem orkuver þeirra eru staðsett.

Rangárþing ytra hefur áhuga á skynsamlegri nýtingu vindorku til hagsbóta fyrir íbúa og samfélagið almennt. Innan sveitarfélagsins er þegar vísir að nýtingu vindorku og hugmyndir um uppbyggingu vindmyllugarða. Þessi frumkvöðlaverkefni eru mjög mikilvæg og afar brýnt að frekari þróun í þessum efnum byggi á traustum grunni. Rangárþing ytra vill því með undirritun viljayfirlýsingarinnar stuðla að því að við frekari nýsköpun á þessu sviði verði leitað farsælustu leiða til að greina hentuga staði fyrir mögulega aukna nýtingu vindorku innan sveitarfélagsins. Jafnframt verði tryggt að orkuframleiðslan skili arði til nærsamfélagsins.
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?