Vinnuhópur um Landmannalaugar á góðu skriði

Vinnuhópur um Landmannalaugar hittist á þriðja fundi sínum nú sl. föstudag. Að þessu sinni var fundað á Þingvöllum og aðstæður skoðaðar þar undir leiðsögn Ólafs Arnars Haraldssonar þjóðgarðsvarðar og Einar Á. Sæmundsen fræðslufulltrúa. Að skoða Þingvelli var virkilega áhugavert og óhætt að segja að uppbygging þar sé til fyrirmyndar.  Þau viðfangsefni sem Þingvellir hafa staðið frammi fyrir eru af svipuðum toga og þau sem blasa við nú og munu hugsanlega blasa við í framtíðinni í Landmannalaugum.

Vinnuhóp um Landmannalaugar skipa Þorgils Torfi Jónsson, Kristinn Guðnason og Steindór Tómasson frá Rangárþingi ytra og Anna G. Sverrisdóttir Samtökum ferðaþjónustunnar, Ólafur A. Jónsson Umhverfisstofnun, Ólafur Örn Haraldsson Ferðafélagi íslands og Þjóðagarðinum Þingvöllum og Stefán Thors forsætisráðuneytinu. Með hópnum starfa Haraldur Birgir Haraldsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri.

Samningur liggur fyrir um gerð deiliskipulags fyrir Landmannalaugar við Landmótun sf. og VA-arkítekta sem hlutu 1. verðlaun í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Landmannalauga á síðasta ári. Í lýsingu á vinningstillögunni segir að hún byggi á þeirri hugmynd að endurheimta tilfinninguna fyrir ósnortnum vìðernum hálendisins á svæðinu við Laugahraunið. Þar myndar ný vörðuð gönguleið samhangandi þráð frá nýju tjaldsvæði og móttökuhúsi við Námshraun og alla leið suður að Grænagili og leiðir þannig ferðalanginn eftir „söguþræði“ Landmannalauga. Í lýsingunni segir að markmiðið sé „að styrkja ímynd Landmannalauga sem stórbrotið náttúrusvæði og þannig raska sem minnst náttúru og lífríki svæðisins.“

Þegar unnið er með svæði líkt og Landmannalaugar sem er ein af okkar helstu perlum þarf að vanda virkilega vel til verka og er það haft að leiðarljósi við þessa vinnu. Næstu skref eru að fara aftur yfir þarfagreiningu svæðisins líkt og gert var í upphafi og samhliða að hefja vinnu við lýsingu á nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Áætlanir gera ráð fyrir að gerð deiliskipulagsins ljúki á árinu 2016.

Fyrir þá sem vilja rifja upp vinningstillöguna þá má nálgast hana á vef Landmótunar,  www.landmotun.is .

Fleiri myndir frá heimsókninni á Þingvelli má nálgast hér:

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?