Vörumiðlun á Hellu

Flutningafyrirtækið Vörumiðlun ehf. hefur verið með starfsstöð á Hellu frá því árið 2015. Árni Kristjánsson, sem áður sá um vöruflutninga til og frá Reykjavík fyrir Sláturhúsið á Hellu, var fyrsti starfsmaður Vörumiðlunar á Hellu. Nú eru þar fimm starfsmenn, fjórir bílstjórar og einn í afgreiðslu.

 

Fylgdi með í kaupunum

„Þetta hefur undið upp á sig jafnt og þétt frá því að starfsstöðin hér á Hellu tók til starfa,“ segir Árni. „Ég ók áður fyrir Sláturhúsið á Hellu og segja má að ég hafi fylgt með í kaupunum þegar Kaupfélag Skagfirðinga, KS, keypti Sláturhúsið. Þá eins og nú snérist þetta um að flytja nautakjöt frá Sláturhúsinu á Hellu og í bæinn og síðan vörur til baka. Nú förum við tvær ferðir á dag til Reykjavíkur, og einnig alla daga austur í Vík og á Klaustur og erum í samstarfi við Samskip. Í sumar varð mikil sprenging í flutningum á matvöru og annarri neysluvöru í tengslum við ferðaþjónustuna, en að auki erum við að flytja allskonar vörur, m.a. fóður fyrir fiskeldisstöðvar og fóður og harðvöru fyrir bændur. Við þjónustum fyrst og fremst Suðurland, frá Þjórsá að Kálfafelli í Vestur-Skaftafellssýslu, en keyrum líka vörur til aðila í Árnessýslu ef því er að skipta.“

 

Fretrokkar og lúxusdrossíur

Starfsumhverfi vörubílstjóra hefur breyst töluvert frá því að Árni byrjaði í vöruflutningum á Hellu. Í rauninni má segja að það sé eins og svart og hvítt. Bílarnir sem boðið er upp á í dag minna fremur á lúxusdrossíur en fretrokkana gömlu sem þóttu fyrna góðir alveg framundir síðustu aldamót.

„Já, þetta hefur breyst mikið frá því að ég byrjaði hjá Stjána í Kaupfélaginu 1994. Þá hét það Þríhyrningur og síðar Höfn-Þríhyrningur. Ég var á Volvo FL7 sem var með skráningarnúmerið L-40. Þá var þetta ekki bara aksturinn, heldur fylgdi honum mikil erfiðisvinna við hleðslu og affermingu. Allar vörur voru forfærðar á höndum að meira eða minna leyti. Nú er þetta allt gert með tækjum og lítið annað sem maður þarf að gera annað en ýta á takka. Sem dæmi þá erum við með skotbómulyftara bæði í Vík og á Hellu.

Vörumiðlun leggur mikið upp úr því að endurnýja bílaflotann reglulega og ég held að það sé hluti af því hversu fyrirtækið gengur vel. Það er mun auðveldara að fá góðan mannskap ef bílarnir eru góðir. Við erum með þrjá stóra flutningabíla og tvo minni. Stærri bílarnir sem við erum með eru með rafskiptingu og öllum helstu þægindum sem boðið er upp á í vöruflutningabílum í dag. Sem dæmi má nefna hraðaskynjara, sem virkar þannig að maður getur látið bílinn fygja hraða næsta bíls á undan, þannig að hann heldur alltaf sama millibili og tryggir þannig að maður lendir ekki í því að nauðhemla eins og kom fyrir á eldri bílunum. Síðan er auðvitað koja og tilheyrandi svo hægt sé að sofa í bílunnum, þótt það komi ekki oft fyrir að við þurfum á því að halda þar sem við erum nær eingöngu í styttri ferðum.“

 

Vöruhúsið skipti sköpum

„Það er mjög góð starfsaðstaða hjá okkur hér á Hellu. Fljótlega eftir að Vörumiðlun tók við flutningum fyrir Sláturhúsið var kjötvinnslan að mestu flutt í bæinn og við fengum aðstöðuna í því húsi fyrir vöruhús og afgreiðslu. Þetta skipti sköpum. Þar eru frysti- og kæligeymslur sem geta tekið allt upp í 50 bretti með varningi og það er gríðarleg hagræðing frá því að við vorum nánast bara með einn gám á plani og þurftum að lesta og forfæra allar vörur úti. Í allt fara um 25 tonn af nautakjöti, og eitthvað af hrossakjöti, frá Sláturhúsinu í bæinn í hverri viku og við tökum svo ýmiskonar varning til baka, eins og ég sagði.

Það eru fimm fastir starfsfmenn í starfstöð Vörumiðlunar á Hellu núna. Fyrir utan mig eru það bístjórarnir Jón Ari Guðbjartsson, Baldvin Páll Tómasson og Einar Aron Kjartansson, og svo sér Jóhann Björnsson um afgreiðsluna í vöruhúsinu. Sjötti starfsmaðurinn hefur svo verið hjá okkur í afleysingum í sumar, Jón Ingþór Haraldsson, sem er bílstjóri, lyftaramaður og hefur einnig sinnt afgreiðslustörfum,“ segir Árni Kristjánsson.

Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?