Frá sveitarstjóra - apríl

Frá sveitarstjóra apríl 2022

Veturinn sem nú er að kveðja hefur verið heldur rysjóttur hvað tíðarfarið snertir. Þannig hefur á köflum þurft að sinna snjómokstri umfram það sem vanalegt er og hvassviðri hefur víða sett strik í reikninga með nokkru foktjóni á stöku stað. En öll él birtir upp um síðir og nú er þetta frá - rétt eins og farsóttin sem hefur haft mikil áhrif á líf okkar allra undanfarin ár. Vissulega höfum við öll áhyggjur af stöðu mála hvað varðar stríðsátök sem geysa hér í okkar heimshluta nú um stundir og hugurinn er hjá íbúum á stríðshrjáðum svæðum. Við berum þá von í brjósti að friður komist á sem allra fyrst. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir fólksflóttann frá Úkraínu síðustu vikur þann mesta sem sést hefur í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Íslendingar undirbúa sig nú undir að taka á móti fólki frá Úkraínu og kallað er eftir allri þeirri aðstoð sem möguleg er. Sveitarfélagið okkar hefur lýst yfir fullum vilja til þess að koma að móttöku flóttamanna eftir bestu getu.

Eins og fram kemur hér í fréttabréfinu þá eru margvísleg tíðindi af almennri uppbyggingu í Rangárþingi ytra. Það sem ber hæst í þeim efnum er upphaf framkvæmda við uppbyggingu skólasvæðisins á Hellu. Þar er um langtímaverkefni að ræða sem hefur verið mörg ár í undirbúningi. Mjög margir hafa komið að undirbúningi þessa mikilvæga verkefnis sem hafist var handa við árið 2018. Starfandi hafa verið vinnuhópar skipaðir skólastjórnendum, kennurum og starfsfólki leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og með þátttöku starfsmanna af öllum sviðum sveitarfélagsins. Þá hefur sveitarstjórnarfólk og utanaðkomandi ráðgjafar komið að þarfagreiningu og hugmyndavinnu á ýmsum stigum en m.a. voru haldir tveir íbúafundir þar sem verkefnið var kynnt og hugmyndum og ábendingum safnað. Nú eru framkvæmdir við 1. áfanga hafnar og þegar hafin vinna við hönnun á 2. áfanga. Ef litið er til sögunnar að þá eru skólabyggingar mikil langtímafrjárfesting og þurfa að miðast við að geta sinnt hlutverki sínu í jafnvel eina öld. Elsti hluti grunnskólans á Hellu var byggður á árunum 1959-1963 og með góðu viðhaldi þá verður hann að öllum líkindum enn í notkun árið 2060. Það þarf því að vanda það sem lengi á að standa. Mikilvægast af öllu er að sú skólaaðstaða sem byggð er upp þjóni tilgangi sínum - nemendum, kennurum og öðru starfsfólki líði vel og njóti sín og nái árangri við nám, störf og leik. Þá er mikilvægt að skólabyggingar séu hagkvæmar í byggingu og rekstri og séu staðarprýði. Það eru því miklar væntingar til þessa mikilvæga verkefnis en vandaður undirbúningur bendir til að þetta eigi að geta heppnast vel.

Þegar ráðist er í framkvæmdir af þessu tagi er mikilvægt að fjárhagur sé traustur. Nú í apríl er lagður fram ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2021 og af honum má sjá að rekstrarniðurstaða er hagfelld eins og undanfarin ár og reyndar allnokkru betri en áætlað var. Þetta er ánægjulegt og gefur góðan byr.

Það er hvetjandi að sjá að önnur framkvæmdaverkefni ganga vel og áfram er sótt um lóðir í töluverðum mæli og víða eru lönd skipulögð. Það er ljóst að kliður verður frá glaðbeittum húsbyggjendum víða um sveitarfélagið á sumri komanda m.a. út um allar sveitir og á Hellu við Kjarröldu, Bogatún, Langöldu, Sandöldu, Sporðöldu, Skyggnisöldu, Snjóöldu, Guðrúnartún, Hrafnskála, Sleipnisflatir, Faxaflatir, Orravelli, Sæluvelli, Ómsvelli, Vigdísarvelli, Dynskála og auðvitað Útskála. Þá má nefna að strax að skóla loknum verður ráðist í að skipta um íþróttagólf á Laugalandi og langþráður brettagarður verður reistur á Hellu. Þá er í sumar ætlun Vegagerðarinnar í samvinnu við sveitarfélagið að byggja göngu- og hjólabraut við brúnna yfir Ytri-Rangá við Hellu, það mun auka öryggi til muna og bæta aðgengi að svæðinu vestan ár. Margt fleira mætti nefna en ávallt er nú best að segja minna og láta verkin frekar tala. Í sumar mun Vegagerðin ljúka við þann áfanga Rangárvallavegar sem nú er undir en næsti áfangi er við Þingskálaveg sem vonandi verður hægt að flýta og bæta fleiri áföngum við, s.s. Hagabraut, þar sem þörfin fyrir vegabætur hér um slóðir er mikil og brýn.

Nú eru framundan kosningar til sveitarstjórna og ljóst að veruleg endurnýjun verður í sveitarstjórnum víða um land og þá ekki síst í okkar sveitarfélagi. Nýju fólki fylgja væntingar og ferskar hugmyndir og fullyrða má að allir sem bjóða sig fram í þessi verkefni eiga sér það markmið að vinna samfélagi sínu gagn og standa sig vel. Það eru því spennandi tímar framundan í Rangárþingi ytra.

Sumardagurinn fyrsti er á næsta leiti með vor í dal og góð fyrirheit. Ég vil nota tækifærið og óska íbúum og starfsfólki sveitarfélagins gleðilegs sumars, velfarnaðar í starfi og leik og bjartrar framtíðar. Með bestu kveðjum og þökkum.

Ágúst Sigurðsson

Pistill þessi birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem nálgast má með því að smella hér að neðan

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?