Frá sveitarstjóra - júní 2021

Ágúst Sigurðsson á toppi Skarðsfjalls.
Ágúst Sigurðsson á toppi Skarðsfjalls.

Við höldum okkar striki og gefum út fréttabréf þar sem áfram eru kynnt til leiks fleiri af okkar fjölbreyttu fyrirtækjum sem rekin eru með glæsibrag í sveitarfélaginu okkar Rangárþingi ytra. Á íbúafundi í mars s.l. var fjallað um atvinnumál á breiðum grunni; áskoranir og tækifæri sem fylgja breyttum heimi og stórstígum tækniframförum. Þessi fundur var gagnlegur og vel sóttur og í kjölfar hans hefur verið unnið að endurskoðun á stefnu okkar í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Þar hafa margir komið að borðinu og mikið af áður óþekktum upplýsingum komið fram. Við höfum m.a. lært að hér í Rangárþingi ytra sinnum við störfum sem teljast til 142 starfaflokka sem bendir til meiri fjölbreytni en maður gat gert sér í hugarlund. Flestir starfa við fræðslustörf, matvælaframleiðslu og þjónustu af ýmsu tagi en fjölbreytnin er engu að síður veruleg. Hér eru sóknarfæri og við vinnslu atvinnu- og nýsköpunarstefnunnar hefur berlega komið í ljós hve mörg tækifæri við eigum til eflingar samfélagsins – við þurfum að grípa sem flest þeirra.

Þess má geta að nú fyrsta dag júnímánuðar var enn á ný blásið til íbúafundar en að þessu sinni með kynningu á verkefninu um þróun skólasvæðisins á Hellu og öðrum framkvæmdum sem eru á döfinni. Þessi fundur var haldinn í Íþróttahúsinu á Hellu auk þess sem honum var streymt á Fésbókarsíðu sveitarfélagsins. Ágætt að geta hvílt okkur aðeins á annars ágætum Zoom fundum sem hafa verið allsráðandi síðustu misserin.

Sveitarstjórn staðfesti ársreikning 2020 í maí og telst rekstrarniðurstaðan viðunandi miðað við aðstæður á síðasta ári. Eins og búist var við voru skatttekjur minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og launahækkanir fyrirferðarmeiri. En stefna okkar á síðasta ári, eftir að ljóst varð í hvað stefndi í farsóttarmálum, var að halda okkar striki með reksturinn, halda fjárfestingum til streitu, halda gjaldskrám og álögum óbreyttum og ráðast í sérstakt atvinnuátak sem meðal annars birtist í því að aldrei hafa fleiri sumarstarfmenn verið ráðnir til sveitarfélagsins. Með þessum ráðstöfunum gerðum við ráð fyrir því í endurskoðaðri áætlun með viðaukum að rekstrarniðurstaða ársins yrði nálægt núllinu og það reyndist rétt. Okkar stefna hefur verið að skila umtalsverðum rekstrarafgangi, en síðasta ár var vissulega undantekning í þeim efnum – en viðbúin. Allt bendir til að þessu sérstæða tímabili sé nú að ljúka og við getum horft fram á betri tíma hvað þetta varðar. Fyrstu rekstrarmánuðir þessa árs gefa a.m.k. jákvæðar vísbendingar um að bjartara sé framundan.

Verulegar breytingar hafa nú orðið í stjórnendahópi sveitarfélagsins og undirstofnana þar sem m.a. reyndir stjórnendur hafa látið af störfum eftir áralöng farsæl störf. Nýr skólastjóri hefur nú verið ráðinn að Laugalandsskóla en Sigurjón Bjarnason skólastjóri til nálægt þriggja áratuga lætur af störfum í sumar. Hinn nýráðni skólastjóri er Yngvi Karl Jónsson sem þekkir vel til í menntamálum hér á svæðinu m.a. í gegnum störf sín við rekstur meðferðarheimilisins á Lækjarbakka og nú síðast við Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu.

Nú í júníbyrjun tekur Ingigerður Stefánsdóttir við sem leikskólastjóri á Heklukoti. Ingigerður er gríðarlega reynd í rekstri leikskóla en hún hefur gegnt starfi leikskólastjóra m.a. á Ísafirði og í Snæfellsbæ undanfarin 28 ár. Það er mikill fengur í því að fá svo reynslumikinn stjórnanda til liðs við okkur til að stýra þessari mikilvægu uppeldisstofnun. Rósa Hlín Óskarsdóttir hefur stýrt Heklukoti undanfarið misseri og eru henni færðar bestu þakkir fyrir en hún mun áfram starfa við leikskólann.

Þá lætur Þórhallur Svavarsson af störfum sem forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar, en ákveðið var á þeim tímamótum að gera nokkrar breytingar á starfinu og skilgreina það að mörgu leyti upp á nýtt. Auglýst var eftir Heilsu-, íþrótta-, og tómstundafulltrúa til að sinna leiðtogastarfi í þessum málaflokkum auk þess að stýra íþróttamiðstöðvum sveitarfélagsins. Til starfans var ráðinn Ragnar Ævar Jóhannsson tómstunda- og uppeldisfræðingur sem undanfarið hefur starfað sem deildarstjóri við Leikskólann Heklukot og býr með fjölskyldu sinni á Hellu. Ragnar hefur mikla reynslu og þekkingu á tómstundastarfi og íþróttahreyfingunni, hefur setið í stjórnum íþróttafélaga, þjálfað börn og unglinga og verið virkur í foreldrastarfi íþróttafélaga og væntum við mikils af hans störfum á næstu árum.

Ég vil nota tækifærið og bjóða þessa flottu stjórnendur velkomna til starfa og um leið færa þeim Sigurjóni, Þórhalli og Rósu Hlín sem nú skila keflinu áfram – innilegustu þakkir fyrir frábær störf.

Þá vil ég einnig nota tækifærið og færa öllum starfsmönnum sveitarfélagsins og undirstofnana kærar þakkir fyrir veturinn og óska íbúum Rangárþings ytra gleðilegs sumars.

Bestu kveðjur,
Ágúst Sigurðsson

 

Fleiri fréttir af sveitarfélaginu má nálgast í fréttabréfi júní mánaðar sem finna má hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?