Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri.

Nanótækni, Orkugeymsla, Efnavísindi, Bálkakeðjur, Líftækni, Róbótar, Sýndarveruleiki, Drónar, Þrívíddarprentun, Sjálfkeyrandi bílar, Hlutanetið, Viðbættur veruleiki, Gervigreind og örugglega margt fleira sem ég kann ekki að nefna. Þetta eru atriði sem tilheyra okkar hversdegi í vaxandi mæli núna og á næstu árum. Þetta eru nefnilega atriði sem tilheyra þeirri miklu iðnbyltingu sem stendur yfir þessi misserin og við tökum öll þátt í hvort sem okkur líkar vel eða síður. Þetta hljómar flest mjög spennandi í mínum eyrum en hvernig eigum við að nýta okkur þetta? Ég kann lítið í flestu af þessu – ætli þau störf sem við erum almennt að sinna núna hérna t.d. í Rangárþingi ytra breytist vegna þessara atriða á næstunni eða höldum við bara áfram að gera það sem við höfum verið að sýsla við?

 

Allt bendir til þess að atvinnulíf okkar muni breytast og við þurfum að búa okkur undir það með öllum tiltækum ráðum. Nýta þessa byltingu og taka þátt í henni þannig að velsæld og lífsgæði haldi áfram að þróast með jákvæðum hætti í okkar nánasta umhverfi rétt eins og víða á jarðkringlunni. Við þurfum að hugsa í lausnum og grípa þau mýmörgu tækifæri sem alls staðar liggja – gera eitthvað sjálf. Ekki bíða. Í sveitarfélaginu mínu – Rangárþingi ytra – framleiðum við gríðarlegt magn af matvælum og þar verður til meirihluti þeirrar raforku sem drífur Ísland áfram. Svo erum við auðvitað mikið í því að taka á móti ferðamönnum og þjónusta fólk með margvísleg verkefni, flytja vörur, smíða, gera við bíla, rækta hross o.fl. Þetta er það sem við gerum mest núna og erum satt best að segja mjög góð í þessu enda gengur okkur vel. Hér í Rangárþingi ytra flykkist að okkur fólk, sækir um lóðir, byggir hús, börnum fjölgar í skólunum, samfélagið vex og dafnar og flestir una glaðir við sitt enda dásamlegt að búa í Rangárþingi ytra og hamingjan skín af mönnum og skepnum.

 

Þannig viljum við hafa það áfram og það þurfum við að tryggja m.a. með því að huga vel að atvinnulífi, hvar getum við sýnt frumkvæði og skapað eitthvað nýtt í þeim efnum. Við íbúar í Rangárþingi ytra ætlum að velta þessum málum fyrir okkur á opnum íbúafundi þann 23 mars næstkomandi kl. 20:00. Þar ætlar Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri þróunarsviðs SASS að gefa okkur yfirlit um atvinnumál í Rangárþingi ytra og m.a. annars segja okkur hvað við erum að gera núna. Einnig ætlar Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun að greina frá tækifærunum sem liggja í sjálfbærri matvælaframleiðslu. Sveitarstjórinn ætlar síðan að velta fyrir sér hlutverki sveitarfélagsins í þessu samhengi. Oddviti okkar, Björk Grétarsdóttir, mun stýra fundinum. Íbúafundurinn verður á Stracta hótel, Hellu, en einnig í boði að vera með á ZOOM og öllu streymt á samfélagsmiðlum að sjálfsögðu. Að því loknu verða snarpar umræður og skilvirkt hópastarf. Skráning fyrir ZOOM og staðfund fer fram hér. Þetta gerum við meðal annars – framtíðin er heillandi.

 

Ágúst Sigurðsson

sveitarstjóri í Rangárþingi ytra

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?