Uppdráttur af umfangi svæðisins í landi Gunnarsholts
Uppdráttur af umfangi svæðisins í landi Gunnarsholts

Fyrirtækið Gbest ehf. lagði nýlega fram deiliskipulagstillögu fyrir skógarplöntuframleiðslu í landi Gunnarsholts.

Tillagan gerir ráð fyrir framleiðslu skógarplantna í gróðurhúsum/léttum byggingum sem og utanhúss innan ræktaðra skjólbelta. Áætlað er að byggja skemmur/gróðurhús og annan húsakost sem þarf til ræktunarinnar og einnig verður starfsmannaaðstaða til viðveru og gistingar. Starfsmenn yrðu að jafnaði allt að 10 en á álagstímum gætu störf á svæðinu orðið allt að 60. Gert er ráð fyrir að plantað verði trjám og skjólbeltum til að auka skjól og afmarka starfsemina.

Í greinargerð umsækjanda kemur fram að um er að ræða 59,9 ha. land sem ekki hefur verið deiliskipulagt áður. Gert er ráð fyrir alls 34 lóðum innan svæðisins undir gróðurhús, útiræktun, kæli- og frystihús, skrifstofubyggingu, sáningar- og pökkunarhús, geymslu- og athafnasvæði, verkstæði, búnaðargeymslu, íbúðarhús o.fl.

Þá hljóðar tillagan upp á að heimilt verði að byggja allt að 40.000 fm af byggingum, að mannvirki geti verið á 1–2 hæðum með hámarksmænishæð 15 metra.

Skipulags- og framkvæmdanefnd samþykkti tillöguna á fundi sínum 22. maí sl.

Tillöguna og nánari gögn um málið má finna í fundargerð nefndarinnar undir 16. lið með því að smella hér.