Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra hefur lagt það til við sveitarstjórn að samþykkja stækkun lóðarinnar Faxaflata 4. Áætlað er að þar rísi verslunarrými fyrir lágvöruverðsverslun og aðra þjónustu.
Fyrir liggur viljayfirlýsing þar sem Drangar hf. lýsa yfir áhuga á að setja upp matvöruverslun náist samningar við eigendur fasteignarinnar sem Land and Houses ehf. og Cheng Hoon International Development ehf. stefna á að byggja.
Drangar hf. eiga meðal annars Samkaup og Orkuna.
Í bókun nefndarinnar segir „Unnið er að samkomulagi við verslunarkeðju sem kallar á stærra húsnæði en nú er gert ráð fyrir á reitnum. Samhliða er óskað eftir að staðsetning á húsnæði færist sunnar sem stækkun nemur til að koma fyrir fleiri bílastæðum fyrir framan í tengslum við verslunarkeðjuna. Núverandi stærð lóðar og stærð á byggingarreit takmarka þessar forsendubreytingar og eru því lykilatriði í þeirri framþróun sem fyrirhuguð er. Viljayfirlýsing liggur fyrir milli aðila til byggingar á verslunarrými fyrir lágvöruverðsverslun á fyrstu hæð.“
Bókun nefndarinnar má lesa í heild sinni undir 14. lið fundargerðar með því að smella hér og undir málinu má einnig skoða teikningar og skipulagsgögn sem og umrædda viljayfirlýsingu.
Faxaflatir 4 eru rauðmerktar á þessu korti:
