Upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins vegna gildandi takmörkun á samkomum – uppfært 4.11.2020

Mötuneyti Grunnskólans á Hellu líkt og annara hefur nú verið skipt upp og börnin borða í hollum með …
Mötuneyti Grunnskólans á Hellu líkt og annara hefur nú verið skipt upp og börnin borða í hollum með 2m millibili.

Nú stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að enn einusinni er nauðsynlegt að grípa til aðgerða vegna farsóttar sem geysað hefur frá því í febrúar. Það er ótrúlegt að upplifa samstöðu og áræðni íbúa og starfsmanna sveitarfélagsins á þessum tímum.

Við biðjum alla að kynna sér vel þær reglur sem eru í gildi og ekki hika við að leita frekari upplýsinga ef einhverjar spurningar vakna.

Berum grímur þegar ótengdir einstaklingar hittast, förum eftir 2m reglunni, þvoum hendum reglulega og notum spritt.

Saman sigrumst við á þessu - áfram við!

--

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tók gildi 31. október 2020 og gildir til og með 17. nóvember 2020. Hana má nálgast hér.

Sérstök reglugerð tekur til skólastarfs sem fjallað er um hér.

Markmiðið er að halda gangandi eins mikilli þjónustu sveitarfélagsins og mögulegt er á hverjum tíma þrátt fyrir samkomubann og hugsanleg veikindi eða sóttkví starfsfólks. Horft er til þess að draga úr smithættu meðal almennings og vernda lykilstarfsmenn frá sóttkví eða veikindum.

Hér má finna yfirlit yfir þjónustu stofnana sveitarfélagsins meðan á samkomubanni stendur, uppfærðar jafnóðum og breytingar verða.

Leikskólar: Leikskólarnir Heklukot og á Laugalandi verða opnir eftir því sem aðstæður leyfa, en starfsemi og leikskólahaldið sjálft verður með nokkuð hefðbundnu sniði sem kynnt hefur verið fyrir öllum foreldrum. Samgangur milli deilda er takmarkaður eins og hægt er og starfsmenn bera grímur. Foreldrar barna í leikskólunum hafa fengið bréf með leiðbeiningum.

Upplýsingar til foreldra í Leikskólanum Heklukoti má nálgast hér. 

Upplýsingar til foreldra í Leikskólanum á Laugalandi má nálgast hér.

Grunnskólar: Skólahald í grunnskólanum á Hellu og Laugalandsskóla verður með breyttu sniði sem þegar hefur verið kynnt fyrir foreldrum og forráðamönnum. Gengið er út frá því, samkvæmt tilmælum stjórnvalda, að í skólastofum, mötuneyti, skóladagheimili og skólabílum sé nemendum raðað með eins miklu millibili og unnt er og aldrei séu fleiri en 10 starfsmenn saman í hópi og 50 nemendur. Að ráði sóttvarnarlæknis er regla um grímuskyldu með þeim hætti að hún eigi ekki við um börn fædd 2011 og síðar. Þeir sem kjósa að hafa börnin sín heima á meðan að þetta ástand varir eru vinsamlegast beðnir um tilkynna það til skólanna og umsjónarkennari mun síðan vera í sambandi upp á áframhaldandi nám.

Bréf sem sent var til foreldra barna í Grunnskólanum á Hellu má nálgast hér.

Bréf sem sent var til foreldra barna í Laugalandsskóla má nálgast hér.

Tónlistarskóli: Starfsmenn Tónlistarskóla Rangæinga hafa unnið áætlun fyrir kennslu næstu vikurnar. Forskólakennsla og aðrir hópatímar eru felldir niður á meðan gildandi samkomutakmarkanir eru í gagni. Kennarar skólans munu vera í nánu sambandi við nemendur og foreldra til þess að halda utanum heimanámið og æfingarnar.

Nánari reglur Tónlistarskólans má nálgast hér.

Íþróttamiðstöð: Íþróttamiðstöðvar á Hellu, Laugalandi og Þykkvabæ, þ.m.t. íþróttasalir, sundlaugar og líkamsrækt eru lokaðar þar til annað verður ákveðið.

Félagsþjónustan mun standa sína vakt og eru skjólstæðingar félagsþjónustunnar hvattir til að hafa samband símleiðis eða í tölvupósti við starfsmenn til að fá frekari upplýsingar. Síminn þar er 487-8125.

Þjónustumiðstöðin að Eyjasandi á Hellu er lokuð almenningi en bent á vaktsíma þjónustumiðstöðvar 487 5284 Hægt er að hafa samband við starfsmenn með síma eða tölvupósti og eru upplýsingar á www.ry.is.

Sorpstöð: Reiknað er með óbreyttri sorphirðu.

Skrifstofa: Afgreiðsla er opin en skrifstofan er lokuð gestum. Símsvörun er eins og vanalega mán-fim. frá 9:00-15:00 og fös. Frá 9:00-13:00. Öllum sem eiga erindi við skrifstofuna er bent á að hringja eða senda tölvupóst. Starfsemi skrifstofunnar er með óbreyttu sniði, síminn er 488 7000. Hægt er að senda tölvupósta á netfangið ry@ry.is og einnig eru upplýsingar um netföng starfsfólks á heimasíðunni www.ry.is.

Félagsmiðstöð verður lokuð þar til annað verður ákveðið og æfingar á vegum Umf. Heklu, KFR og Garps falla niður.

Námsver í Miðjunni á Hellu er lokað þar til annað verður ákveðið. 

Önnur íþróttamannvirki í sveitarfélaginu: Rangárhöllin, skotsvæðið á Geitasandi og Golfvöllurinn á Strönd eru öll lokuð á meðan núverandi samkomutakmarkanir standa yfir. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?