Vel heppnaður samráðsfundur Ásahrepps og Rangárþings ytra

Í dag var haldinn gagnlegur og góður fundur þar sem farið var yfir öll sameiginleg verkefni Ásahrepps og Rangárþings ytra. Gefið var heildaryfirlit um samstarf sveitarfélaganna, stjórnarformenn byggðasamlaganna Odda, Húsakynna og Vatnsveitu fóru yfir reksturinn með þeim starfsmönnum sem hafa yfirumsjón með hverju verkefni. Þá var farið yfir rekstur allra þjónustu- og samstarfssamninga. 

Árið 2016 var fyrsta heila rekstrarárið eftir gagngera endurskoðun á öllum samstarfsverkefnum sveitarfélaganna en þar er mesta breytingin fólgin í stofnun byggðasamlagsins Odda bs um rekstur allra leik- og grunnskólanna og útfærslu á sérstökum þjónustusamningum fyrir sérhvert verkefni. Á fundinum kom sterklega fram að vel hefur tekist til við útfærslu verkefnanna og þetta fyrsta rekstrarár gefur til kynna að samstarfsverkefni sveitarfélaganna séu í farsælum farvegi.

Fundurinn var haldinn af samráðsnefnd sveitarfélaganna en hún samanstendur af fullskipuðum sveitarstjórnum Rangárþings ytra og Ásahrepps.Fundargerð frá fundinum með fylgigögnum má finna hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?