Grafa og flutningabíll á vinnusvæðinu þar sem leikskólinn mun rísa, austan við grunnskólann.
Grafa og flutningabíll á vinnusvæðinu þar sem leikskólinn mun rísa, austan við grunnskólann.

Jarðvinna er hafin vegna byggingar nýs leikskóla á Hellu. Búið er að girða af vinnusvæðið þar sem byggingin á að rísa og byrjað verður á að grafa fyrir grunni hússins. Mikil umferð stórra vinnuvéla er inn og út af svæðinu og biðjum við íbúa um að sýna aðgát í nágrenni þess og brýna það fyrir börnum að gera hið sama og fara alls ekki inn á vinnusvæðið.

Mikil uppbygging hefur staðið yfir á skólasvæðinu á Hellu síðustu ár en brátt sér fyrir endann á stækkun grunnskólans auk þess sem nýr gervigrasvöllur í fullri stærð var tekinn í notkun nýlega. 

Mikil eftirvænting er fyrir nýrri leikskólabyggingu sem er hönnuð í takt við nýja skólann og gerir ráð fyrir að geta tekið við stækkandi barnhóp sem fylgir þeirri stöðugu fólksfjölgun sem er í sveitarfélaginu.

Samkvæmt teikningum verður ásýnd leikskólans á þessa leið, í stíl við nýbygginu grunnskólans. Leikskólagarðurinn verður stór og fjölbreyttur og gert er ráð fyrir hringrásarsvæði með moltugerð og matjurtaræktun. Þessi mynd er úr kynningarmyndskeiði sem sýnt var á íbúafundi í fyrra en myndskeiðið má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

 

Tölvuteiknuð mynd af leikskólanum og garðinum

Frekari gögn má nálgst undir 4. lið fundargerðar framkvæmda- og eignarnefndar frá 29. október sl. með því að smella hér.