Menningarstarfsemi í Rangárþingi ytra er svo sannarlega blómleg og fjölbreytt menningarverkefni í gangi. Mörg hver tengjast hellum, fornum býlum, eyðibýlum, fornum sögustöðum, ljósmyndum og fleiru. 

Hér á þessari síðu má finna upplýsingar um nokkur þeirra menningarverkefna sem í gangi eru. Vinsamlegast smellið á viðeigandi verkefni fyrir nánari upplýsingar.

Vinir Keldna

Í tengslum við fjölsótt málþing um Keldur á Rangárvöllum, sem haldið var í Gunnarsholti, var stofnað vinafélag Keldna á Rangárvöllum. Markmið félagsins er að vera brjóstvörn staðarins, stuðla að endurreisn hans, varðveislu og viðhaldi gömlu húsanna og frekari rannsóknum á mannvirkjum og umhverfi gamla bæjarins á Keldum. Í tilefni málþingsins efndu vinir Keldna til fræðsluferðar til Keldna með viðkomu m.a. í Odda á Rangárvöllum. Mikill áhugi var meðal málþingsgesta um málefnið og hvatti þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, til átaks í þágu hins fornfræga býlis Keldna á Rangárvöllum. Á Keldum hefur verið búseta frá upphafi Íslandsbyggðar og þar stendur elsti torfbær á Íslandi.

Formaður félagsins er: Sigurður Sigurðarson dýralæknir.

Oddafélagið

Oddafélagið er samtök áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum. Heimili þess er í Odda á Rangárvöllum og varnarþing í Rangárvallasýslu. Félagið var stofnað 1. desember árið 1990 og félagar nú eru um 200. Heiðursfélagar Oddafélagsins eru Þórður Tómasson í Skógum, Sveinn Runólfsson frá Gunnarsholti og Þór Jakobsson. Verndari Oddafélagsins er Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti.

Heimasíða félagsins: www.oddafelagid.net 

 

Hella - þorp í þjóðbraut

Byggðasaga Hellu.

 

Þráður á Landi

Verkið er um fimm kynslóðir sömu ættar, sem bjó á sjö býlum á Rangárvöllum og í Landsveit frá 1760 til 1941.

Þetta fólk er löngu horfið en víða eru ummerki búsetu þeirra, hlaðnir garðar og húsveggir og grónar tóftir. Sumstaðar eru ummerkin ógreinileg, jafnvel horfin undir gróður og sand. Við sjóndeildarhring rísa tignarleg fjöll og Hekla, drottningin sjálf, skipar öndvegi við hálendisbrún.

Minningin um fólkið tengist stöðunum og sveitinni þar sem það fæddist, lifði og dó. Þarna er náttúran stórbrotin, fögur en líka ógnvekjandi og minningin um fólkið er samofin þessari náttúru.

Sagan og staðirnir vernda hvert annað. Ef við þekkjum söguna og virðum hana þá flyst sú virðing yfir á staðina, yfir á náttúruna. Sögustaður er að vissu leiti heilagur staður. Saga fólks eru rætur okkar og ræturnar liggja í landinu.

Fólkið er minning og býlin eru grónar tóftir. Ein tóftin er á Reynifelli á Rangárvöllum. Þar byrjar sagan og þaðan liggur söguþráðurinn yfir í Landsveit, að sex stöðum: Mörk, Gamla-Klofa, Stóra-Klofa, Gamla Skarðsseli, Skarðsseli við Þjórsá og að lokum að Skarfanesi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?