Reglur varðandi framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun í sveitarstjórn Rangárþings ytra.

 

1. Almennt um viðauka

  • Fjárhagsáætlun hvers árs er bindandi ákvörðun sveitarstjórnar um fjárheimild ársins.
  • Leita skal fyrirfram samþykkis byggðaráðs og sveitarstjórnar vegna útgjalda og fjárfestinga umfram gildandi fjárhagsáætlun. Sveitarstjóri, fjármálastjóri og sviðsstjórar/forstöðumenn bera ábyrgð á að halda rekstri ársins innan fjárheimilda.
  • Viðauka við fjárhagsáætlun skal ekki gera til að leiðrétta í fjárhagsáætlun útgjöld í rekstri eða fjárfestingar sem þegar hefur verið stofnað til.
  • Ekki er heimilt að samþykkja ný útgjöld í rekstri eða til fjárfestingar, sem ekki er gert ráð fyrir í gildandi fjárhagsáætlun, nema áður sé samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun Rangárþings ytra.
  • Alltaf skal leitast við að finna svigrúm innan viðkomandi deildar/málaflokks sem ráðstöfunin snertir áður en óskað er eftir gerð viðauka.
  • Forsenda samþykktar á viðauka er að fram komi hvernig hin nýju útgjöld verði fjármögnuð. Ef ákvörðun kallar á færslu milli liða þarf að liggja skýrt fyrir um hvaða liði fjárhagsáætlunar um ræðir svo bóka megi í viðauka.
  • Sækja þarf heimild vegna tilfærslu á milli launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar og millifærslu milli deilda. Sama á við um tilfærslur á milli fjárfestinga og millifærslu milli verkefna; óska þarf eftir viðauka ef gera á slíkar tilfærslur.
  • Sveitarstjóri, fjármálastjóri og forstöðumenn bera ábyrgð á því að stofnanir og deildir sem undir þá heyra fari ekki fram úr fjárheimildum þannig að fjárhagslyklar í heild sinni séu innan fjárhagsramma.
  • Sveitarstjóri, fjármálastjóri og forstöðumenn bera ábyrgð á að tillögur að viðauka séu gerðar og lagðar fyrir byggðaráð og síðan sveitarstjórn.
  • Sveitarstjórn er ein til þess bær að samþykkja viðauka. Á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi telst byggðaráð bært til þess að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun ef slíkt tilefni kemur upp. Ef um er að ræða grundvallarbreytingar á fjárhagsáætlun skal kappkosta að kalla sveitarstjórn saman til aukafundar til að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun.

 

2. Heimildir vegna tilfærslu milli launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar.

Verði breytingar á stöðugildum starfsmanna, aukning á launakostnaði eða tilfærsla á milli launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar skal fjármálastjóri í samráði við sveitarstjóra og viðkomandi forstöðumann leggja tillögu fyrir byggðarráð, ásamt minnisblaði eða öðrum gögnum, þar sem fram kemur hvaða áhrif tillagan muni hafa á samþykkta fjárhagsáætlun. Sveitarstjóri og fjármálastjóri bera ábyrgð á að leggja gögnin/málið fyrir byggðarráð. Heimilt er að færa á milli launakostnaðar og annars rekstrarkostnaðar allt að 1 milljón króna án samþykktar sveitarstjórnar.

3. Heimildir vegna millifærslu milli deilda

Ef fjárhagslegar ráðstafanir sem ekki er gert ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun snerta fleiri en eina deild skal ætíð leggja fram viðauka. Fjármálastjóri í samráði við sveitarstjóra og viðkomandi forstöðumann leggur fyrir byggðarráð tillögu ásamt minnisblaði eða öðrum gögnum, þar sem fram kemur hvaða áhrif tillagan muni hafa á samþykkta fjárhagsáætlun. Sveitarstjóri og fjármálastjóri bera ábyrgð á að leggja gögnin/málið fyrir byggðarráð. Lágmarksfjárhæð vegna millifærslu milli deilda er 1 milljón kr. Fjárhæðum undir 1 milljón króna skal finna svigrúm innan viðkomandi deildar.

4. Lágmark fjárhæðar sem leita þarf samþykkis fyrir með viðauka

Ætíð skal leitast við að finna svigrúm innan viðkomandi deildar/málaflokks sem ráðstöfunin snertir áður en leitað er að svigrúmi annarsstaðar. Lágmarksfjárhæð sem leita þarf samþykkis fyrir með viðauka er 1 milljón króna.

Fjárhæð undir 1 milljón kr. skal finna svigrúm innan viðkomandi deildar/málaflokks.

5. Heimildir vegna fjárfestinga og tilfærslu milli verkefna

Framkvæmdaráði (sveitarstjóra, fjármálastjóra og sviðstjóra eigna- og framkvæmdasviðs) er heimilt að hliðra til verkefnum í framkvæmda- og/eða fjárfestingaáætlun án samþykkis sveitarstjórnar, svo fremi að breytingin nemi ekki hærri fjárhæð en 5 milljónum króna og rúmist innan áður samþykktrar heildarfjárhæðar til fjárfestinga og framkvæmda í fjárhagsáætlun ársins.

Sé fjárhæð tilfærslu milli verkefna yfir 5 milljónum króna fer sú tillaga frá framkvæmdaráði til umræðu og afgreiðslu í byggðarráði og síðan til samþykktar í sveitarstjórn.

Fjárfestingar og/eða framkvæmdir sem ekki rúmast innan áður samþykktrar fjárhæðar í fjárhagsáætlun skal ætíð gera viðauka um.

Tillögu ásamt minnisblaði eða öðrum gögnum þar sem fram kemur hvernig útgjöldunum verði mætt og hvaða áhrif tillagan muni hafa á samþykkta fjárhagsáætlun skal leggja fyrir byggðarráð. Sveitarstjóri og fjármálastjóri bera ábyrgð á að leggja gögnin/málið fyrir byggðarráð.

6. Viðaukar byggðarsamlaga og félaga í eigu sveitarfélagsins

Byggðarsamlög sem sem rekin eru af sveitarfélaginu og félög sem eru í meirihlutaeigu sveitarfélagsins skuldu fara eftir sömu reglum þegar kemur að gerð viðauka við fjárhagsáætlun. Fjármálastjóri og/eða framkvæmdastjóri viðkomandi byggðarsamlags eða félags í samráði við forstöðumann ef við á, leggur fram tillögu að viðauka ásamt minnisblaði eða öðrum gögnum þar sem fram kemur hvernig útgjöldum verði mætt og hvaða áhrif tillagan muni hafa á samþykkta fjárhagsáætlun. Stjórn afgreiðir viðaukann sem fer svo til staðfestingar hjá sveitarstjórn. Um tilfærslur á milli liða gilda sömu reglur og hér að ofan.

Viðauki skal fá eina umræðu í byggðarráði áður en hann er lagður fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Í bókun byggðarráðs skal þess gætt að skýrt komi fram upplýsingar um eðli breytinga, fjárhagsleg- áhrif og hvernig lagt sé til að útgjöldunum eða fjárfestingunni verði mætt. Geri byggðarráð breytingartillögu skal koma skýrt fram í hverju breytingin felst.

Þegar byggðarráð hefur samþykkt viðauka og vísað til sveitarstjórnar skal sveitarstjóri koma tillögunni til fjármálastjóra sem sendir sveitarstjóra viðaukann númeraðan og útbýr sérstakt yfirlit um fjárhagslegar ráðstafanir hafi það ekki nú þegar verið gert eða ef byggðarráð hefur gert breytingar á framlagðri tillögu.

Viðaukinn við fjárhagsáætlun ásamt fylgigögnum er lagður fyrir sveitarstjórn til samþykktar. Sé viðaukinn samþykktur skal hann bókaður og tilkynning þess efnis send fjármálastjóra. Fjármálastjóri ber ábyrgð á að fjárhagsáætlun sé uppfærð til samræmis við samþykkta viðauka og að viðaukar séu sendir Hagstofunni og Kauphöll innan tilskilinna tímamarka.

 

Staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 9.1.2020
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?