Reglur um styrkveitingar Rangárþings ytra á móti álögðum fasteignaskatti á eignir sem notaðar eru í viðurkennda menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi.

1. gr.

Sveitarstjórn er heimilt, skv. ákvæðum 1. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt, að veita styrki til greiðslu á álögðum fasteignaskatti á eignir sem notaðar eru í viðurkennda menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi innan sveitarfélagsins. Styrkurinn getur verið fyrir hluta af álögðum fasteignaskatti eða öllum eftir ákvörðun sveitarstjórnar í hverju tilfelli.

2. gr.

Aðeins skráðir eigendur eða forsvarsmenn félaga sem eru skráðir eigendur fasteigna í viðurkenndri menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi geta sótt um styrki.

3. gr.

Íþróttafélög, björgunarsveitir, félög í menningarstarfsemi svo sem kórar, leikfélög o.fl. og félög sem eingöngu eru rekin í mannúðarskyni geta sótt um styrki til greiðslu á álögðum fasteignaskatti sem hér segir: Umsókn skal fyllt út og undirrituð og skal hún berast til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir fyrsta eindaga fasteignagjalda á hverju ári. Eingöngu kemur til álita að veita félögum styrki sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Ef rekin er viðurkennd menningar-, mannúðar- og/eða tómstundastarfsemi í hluta eignar, skal eingöngu veita styrk til greiðslu álagðs fasteignaskatts fyrir það rými eignarinnar sem þannig er nýtt. Á eyðublaði skal eftirfarandi koma fram: Nafn; kt. umsækjanda; fasteignanúmer og stærð eignar; stærð rýmis sem sótt er um styrk fyrir; tilgreind sundurliðuð notkun viðkomandi eignar eftir rýmum og hvers konar starfsemi eignin er notuð í; er rýmið til almennrar útleigu í ágóðaskyni? Já/nei. Ársreikningur skal fylgja umsókn.

4. gr.

Samþykki fyrir styrkveitingu gildir aðeins fyrir yfirstandandi fjárhagsár hverju sinni.

5. gr.

Reglur þessar voru samþykktar í sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. desember og taka þegar gildi frá 1.1.2020.

Ágúst Sigurðsson
sveitarstjóri

 

Sótt er um styrk með því að fylla út eyðublaðið hér að neðanverðu og senda það á netfangið ry@ry.is eða með því að skila því á skrifstofu sveitarfélagsins.

Eyðublað vegna styrkveitinga á móti fasteignaskatti

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?