Reglur um styrk á móti fasteignagjöldum

Reglur um styrkveitingar Rangárþings ytra á móti álögðum fasteignaskatti á eignir sem notaðar eru í viðurkennda menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi.


1. gr.
Sveitarstjórn er heimilt, skv. ákvæðum 1. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1160/2005 um fasteignaskatt, að veita styrki til greiðslu á álögðum fasteignaskatti á eignir sem notaðar eru í viðurkennda menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi innan sveitarfélagsins. Styrkurinn getur verið fyrir hluta af álögðum fasteignaskatti eða öllum eftir ákvörðun sveitarstjórnar í hverju tilfelli.

2. gr.
Aðeins skráðir eigendur eða forsvarsmenn félaga sem eru skráðir eigendur fasteigna í viðurkenndri menningar-, mannúðar og tómstundastarfsemi geta sótt um styrki.

3. gr.
Íþróttafélög, björgunarsveitir, félög í menningarstarfsemi svo sem kórar, leikfélög o.fl. og félög sem eingöngu eru rekin í mannúðarskyni geta sótt um styrki til greiðslu á álögðum fasteignaskatti sem hér segir:
Umsókn um niðurfellingu álagðs fasteignaskatts skal vera skrifleg og berast til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir fyrsta eindaga fasteignaskattsins á hverju ári. Í umsókn skal tilgreina nákvæmlega ástæður þess að sótt er um styrk, svo sem sundurliðaða notkun viðkomandi eignar eftir rýmum í henni. Lýsa skal þeirri starfsemi sem eignin er notuð í og hvort hún er rekin í ágóðaskyni eða ekki. Eingöngu kemur til álita að veita félögum styrki sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Ef rekin er viðurkennd menningar-, mannúðar og/eða tómstundastarfsemi í hluta eignar, skal eingöngu veita styrk til greiðslu álagðs fasteignaskatts fyrir það rými eignarinnar sem þannig er nýtt.

4. gr.
Samþykki fyrir styrkveitingu gildir aðeins fyrir yfirstandandi fjárhagsár hverju sinni.

5. gr.
Reglur þessar voru samþykktar í hreppsnefnd Rangárþings ytra þ. 1. mars 2006 og taka þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða:
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglnanna er heimilt á árinu 2006 að sækja um styrki til og með 1. apríl 2006.

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson
sveitarstjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?