Gönguleiðir

Í Rangárþingi ytra eru fjölmargar stikaðar gönguleiðir en flestar eru þær í Landsveit og í tengslum við Friðland að fjallabaki. Hér verða nefndar nokkrar leiðir en fleiri leiðir eru aðgengilegar t.d. í bókinni Hellismannaleið e. Guðna Olgeirsson og bókinni Gönguleiðir að Fjallabaki e. Írisi Marelsdóttir. Leiðirnar sem hér eru nefndar eru úr bók Guðna og birtar með góðfúslegu leyfi hans.

Hellismannaleið - Gönguleið frá Leirubakka í Landsveit í Landmannalaugar.

Fossabrekkur á Hellismannaleið

"Um miðjan 10. áratug 20. aldar fóru heimamenn í Rangárþingi ytra, m.a. þeir sem reka ferðaþjónustu í skálum á Landmannaafrétti og nágrenni að velta fyrir sér þeim möguleika að marka gönguleið á milli skála á svæðinu. Eitt leiddi af öðru og smám saman jókst áhuginn á þessu verkefni og hugmyndir mótuðust um gönguleið úr byggð í Landsveit allar götur inn í Landmannalaugar. Haukur Jóhannesson fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands mun eiga hugmyndina að nafninu Hellismannaleið fyrir þessa nýju gönguleið. Með nafninu er ekki vísað beitn í sérstaka sögu af hellismönnum eða útilegumönnum en miðstöð ferðaþjónustu við Landmannahelli er í umsjón félags sem heitir Hellismenn ehf. Einnig má geta þess að fyrr á árum var skipt liði í smalamennsku á haustin, hluti smala varð eftir í Landmannahelli og voru þeir nefndir Hellismenn. Hinn hluti fjallmann fór austur í Landmannalaugar og kölluðust Laugamenn eða Gilsmenn, þetta fyrirkomulag hélst til 1970. Nafnið Hellismannaleið festist fljótlega við gönguleiðina sem var stikuð í áföngum á árunum 2006-2008 af áhugafólki sem hefur tengsl við svæðið. Merkta leiði frá Rjúpnavöllum í Landsveit í Landmannalaugar var síðan formlega opnuð 2009. Leiðin er alls 57km, þ.e. svipað löng og Laugavegurinn og álíka krefjandi."

1. Leirubakki - Rjúpnavellir (Skarfanesleið) 25km
2. Rjúpnavellir - Áfangagil (í ríki Heklu) 18,5km
3. Áfangagil - Rjúpnavellir (Landmannaafréttur) 22,5km
4. Landmannahellir - Landmannalaugar (Friðland að fjallabaki) 16,5km

Laugavegurinn

Landmannalaugar

Laugavegurinn er 55km gönguleið frá Landmannalaugum í Þórsmörk, hefur árum saman verið vinsælasta gönguleiðin um hálendi íslands. Vinsældir þessarar stórbrotnu gönguleiðar hafa aukist verulega undanfarinn áratug, bæði hjá innlendum og erlendum gönguhópum.

1. Landmannalaugar - Hrafntinnusker 12km
2. Hrafntinnusker - Álftavatn 12km
3. Álftavatn - Emstrur 15km
4. Emstrur - Þórsmörk 15km

Upplýsingar um fleiri leiðir eru væntanlegar en annars er vísað í bækurnar hér að ofan fyrir nánari upplýsingar.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?