Samþykkt fyrir heimasíðu og facebook síðu Rangárþings ytra

Rangárþing ytra hefur gegnsæi og opna stjórnsýslu sem leiðarljós í allri umsjón á sínum miðlum. Lagt er kapp á að veita upplýsingar á sem skilvirkastan hátt fyrir notendur miðlanna.

Rangárþing ytra heldur úti virkri heimasíðu sem og „like“ síðu á Facebook. Lén heimasíðu sveitarfélagsins er www.ry.is en lén Facebook síðunnar er https://www.facebook.com/Rangárþing-ytra-349403531824425. Skrifstofa Rangárþings ytra hefur umsjón með síðunum. Umsjón með síðum undirstofnana er ávallt á þeirra ábyrgð.

 

Rangárþing ytra ber endanlega ábyrgð á því efni sem birtist á vefsíðu sem og Facebook-síðu komi til málshöfðunar vegna þeirra.

 

Umsjónarmenn skulu setja inn á síðuna allt það efni sem er tilgreint í ritstjórnarstefnu síðunnar og tilheyrir sveitarfélaginu.

 

Sveitarstjóri ákveður á hverjum tíma hvaða starfsmanni/starfsmönnum á skrifstofu skuli falið að hafa umsjón með síðunum.

 

Ritstjórnarstefna vefmiðla Rangárþings ytra

 

Inn á vefmiðla skulu settar aðgengilegar upplýsingar fyrir þá sem síðuna nota.

 

Til þeirra telst;

 

A) upplýsingar um stjórnsýslu Rangárþings ytra, fundargerðir sveitarstjórnar og nefnda, umsóknareyðublöð, gjaldskrár og gildandi samþykktir og reglur ásamt tilkynningum.

 

B) Viðburðardagatal til frjálsra nota um hverskonar viðburði, uppákomur og fundi í sveitarfélaginu. Umsjónarmaður skal sjá um að samþykkja birtingu innsendra viðburða í dagatali.

 

C) Aðsendir pistlar

 

D) Staðbundinn fróðleikur

 

E) krækjur á heimasíður þjónustuaðila í sveitarfélaginu og valdra aðila sem tengjast því

 

F) annað það sem umsjónarmaður ákveður hverju sinni.

 

Gæta skal þess að upplýsingar um stjórnsýslu og annað séu ætíð uppfærðar eftir breytingar, þannig að treysta megi því að þær upplýsingar sem þar er að finna séu réttar.

 

Birta skal fundargerðir sveitarstjórnar á heimasíðunni ekki síðar en næsta virka dag eftir fund. Fundargerðir nefnda skulu birtar eins fljótt og unnt er, en birta skal þann fyrirvara að nýjustu fundargerðir nefnda gætu átt eftir að fá endanlega staðfestingu sveitarstjórnar.

 

Birta skal upptökur af sveitastjórnarfundum eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir fund.

 

Á forsíðu má birta tilkynningar, enda skulu þær merktar sem slíkar. Með tilkynningum er átt við t.d. auglýsingar um spilakvöld, messur, tónleika og aðra viðburði og uppákomur í sveitarfélaginu.

 

Aðsendir pistlar þurfa að standast ritstjórnarstefnu síðunnar og vera merktir höfundi.

 

Umsjónarmanni er heimilt að fjarlægja álit sem er ekki undirritað eða telst meiðandi eða til vansæmdar á einhvern hátt, jafnframt efni sem tengist ekki viðkomandi frétt. Þá er umsjónarmanni heimilt að loka fyrir að hægt sé að skrifa álit við fréttir verði vart við ítrekaðar innsetningar sem ekki eru í samræmi við ritstjórnarstefnu síðnanna.

 

Umsjónarmanni er ávallt heimilt að fjarlægja efni sem berst inn á síðurnar enda sé efnið ekki í samræmi við ritstjórnarstefnu síðnanna.

 

Komi upp álitamál varðandi aðsent efni og álit við fréttir skal það tekið út og tekur sveitarstjórn ákvörðun á næsta fundi sínum um hvort efnið sé birt að nýju og/eða hvort ákvörðun umsjónarmanns standi. Allt efni sem tekið er með þessum hætti út af vefnum eða ekki birt skal  varðveitt á skrifstofu Rangárþings ytra, þar sem hver sem er getur haft aðgang að.

 

Fjölmiðlum er heimilt að birta fréttir af heimasíðu Rangárþings ytra án sérstaks leyfis, enda skal heimildar getið.

 

Tilgreina skal ábyrgðarmann á síðunum.

 

Samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. október 2019.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?