Úthlutunarreglur lóða í Rangárþingi ytra

1. gr. Almennt

Byggðarráð Rangárþings ytra sér um úthlutun byggingarlóða í sveitarfélaginu í umboði
sveitarstjórnar, samkvæmt þessum vinnureglum. Sveitarstjóri eða staðgengill hans annast
samskipti við umsækjendur og leggur fram tillögur um úthlutun til staðfestingar í
samræmi við þessar vinnureglur.

2. gr. Auglýsing

Allar lóðir skulu auglýstar áður en þeim er úthlutað í fyrsta sinn, sjá þó 9. grein.
Umsóknarfrestur skal vera 2 vikur.
Lóðir sem koma til endurúthlutunar skulu auglýstar lausar til úthlutunar á heimasíðu
sveitarfélagsins.
Listi yfir lausar lóðir skal ávallt liggja frammi á heimasíðu sveitarfélagsins.

3. gr. Umsóknir

Umsóknir skulu berast skrifstofu sveitarfélagsins eða rafrænt á heimasíðu
sveitarfélagsins á þar til gerðum eyðublöðum sem skulu fyllt út skv. fyrirskrift. Séu ekki
veittar tilskyldar upplýsingar í viðkomandi reiti eyðublaðsins telst umsókn ógild.
Komi í ljós eftir lóðarúthlutun að lóðarhafi hafi veitt rangar og eða villandi upplýsingar
vegna lóðarumsóknar er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun. Í umsókn skulu umsækjendur tilgreina með glöggum hætti byggingaráform sín og framkvæmdahraða.

4. gr. Kröfur til umsækjenda

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til umsækjenda og/eða umsókna:

  • Umsóknir teljast því aðeins gildar að þær hafi borist á rétt útfylltum þar til gerðum eyðublöðum, áður en auglýstur umsóknarfrestur rennur út.
  • Umsækjendur skulu vera fjárráða og ekki vera í fjárhagslegum vanskilum við sveitarfélagið.
  • Umsækjandi og maki/sambúðaraðili hans teljast sem einn aðili.
  • Hafi umsækjandi þegar fengið úthlutaðri lóð án þess að hafa hafið framkvæmdir kemur viðkomandi ekki til greina við úthlutun á nýjum lóðum.

5. gr. Staðfestingargjald

Til þess að úthlutun öðlist gildi skal umsækjandi greiða að lágmarki 50% af áætluðu gatnagerðargjaldi samkvæmt samþykkt um byggingargjöld í Rangárþingi ytra. Mögulegt er að semja um greiðslufrest, sbr ákvæði í samþykkt um byggingargjöld í Rangárþingi ytra, en þó skulu 5% gatnagerðargjalds ávallt greidd innan 30 daga eftir gjalddaga en að öðrum kosti fellur úthlutunin niður sjálfkrafa og án viðvörunar. Þessi 5% gatnagerðargjalds eru óafturkræf. Byggingarleyfi skal ekki veitt fyrr en gatnagerðargjald hefur verið greitt eða um það samið.

6. gr. Lóðir undir einbýlishús

Við úthlutun lóða undir einbýlishús skulu einstaklingar hafa forgang, enda uppfylli umsóknir þeirra þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum þessum. Þeim einbýlishúsalóðum, sem ekki ganga út til forgangsaðila, er heimilt að úthluta til annarra sem leggja fram fullgildar umsóknir. Umsókn hjóna/sambýlisfólks skal vera sameiginleg.

7. gr. Lóðir undir raðhús, parhús og fjölbýlishús og aðrar lóðir

Við úthlutun lóða fyrir raðhús, parhús, fjölbýlishús og önnur hús eru allar umsóknir að jafnaði jafnréttháar. Við úthlutun lóða til framkvæmdaaðila skal taka tillit til þess hvort viðkomandi hafi staðið við skuldbindingar sínar vegna fyrri úthlutana, þar með talið að eðlilega framvinda hafi verið í byggingarframkvæmdum.

8. gr. Undanþága frá auglýsingu

Byggðarráði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum án undangenginna auglýsinga. Endanleg úthlutun getur þó ekki farið fram fyrr en að lokinni skipulagsvinnu, sé hennar þörf og að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

9. gr. Frestur til að hefja framkvæmdir

Við úthlutun íbúðarlóða skal frestur lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðinni vera 8 mánuðir frá því að hverfi eða hverfishluti er tilbúinn, þ.e. þegar stofnkerfi lagna við viðkomandi lóð er tilbúið. Framlenging á frestinum kemur því aðeins til greina að lóðarhafi sæki um slíkt áður en fresturinn rennur út og geti fært fram rök fyrir slíkri beiðni. Fresturinn framlengist þó aldrei lengur en í 4 mánuði.
Ef lóð er ekki byggingarhæf við úthlutun gildir dagsetning sérstakrar tilkynningar byggingarfulltrúa til lóðarhafa um að lóðin sé orðin byggingarhæf. Úthlutun fellur úr gildi ef frestur rennur út án þess að lóðarhafi hefji byggingarframkvæmdir eða setji fram rökstudda beiðni um lengri frest.
Tilkynna skal lóðarhafa í ábyrgðarbréfi eða með öðrum sambærilegum hætti að úthlutun sé fallin úr gildi. Endurgreiðslu staðfestingargjalds skal vera háttað skv. ákvæðum í samþykkt um byggingargjöld í Rangárþingi ytra.

10. gr. Frágangur lóðar

Lóðarhöfum er skylt að hlíta þeim tímamörkum að hús skuli fullgert að utan, lóð grófjöfnuð í rétta hæð, rykbundin, gróðri komið fyrir og gengið frá mörkum við aðrar lóðir, götur og opin svæðin innan 3ja ára frá útgáfu byggingarleyfis.

11. gr. Lóðaleigusamningar

Lóðarleigusamningur verður ekki gerður fyrr en öll gjöld hafa verið greidd til sveitarfélagsins eða um þau samið og að eignaskiptayfirlýsing liggi fyrir, sbr. lög um fjöleignarhús nr. 26/1994 með síðari breytingum.

Lóðarhafa er óheimilt að framselja leigurétt sinn fyrr en lóðarleigusamningur hefur verið gerður og honum þinglýst. Lóðarhafi ber kostnað af þinglýsingu samningsins.

12. gr. Meðferð umsókna

Við alla afgreiðslu umsókna og meðhöndlun þeirra skal gæta jafnræðis og samræmis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993
Farið skal með allar persónulegar upplýsingar sem fram koma í umsókn sem trúnaðarmál. Reglur upplýsingalaga nr. 140/2012 gilda þó um þau efnisatriði sem lögin heimila að séu upplýst. Að lokinni úthlutun skal öllum umsækjendum svarað skriflega.

13. gr. Önnur ákvæði

Sveitarstjórn Rangárþings ytra getur sett ítarlegri ákvæði um framkvæmd þessara úthlutunarreglna. Nánari lýsingu á framkvæmd við úthlutun lóða er að finna í sérstökum verklagsreglum sem um málið fjallar.


Reglur þessar eru samþykktar af sveitarstjórn Rangárþings ytra þ. 14.10.2021 og taka þegar gildi.

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri

 

 

Verklagsreglur við úthlutun lóða í Rangárþingi ytra

1. gr.

Í gildi eru úthlutunarreglur lóða í Rangárþingi ytra sem samþykktar voru af sveitarstjórn þann 14.10.2021. Eftirfarandi verklagsreglur eru settar fyrir byggðarráð, til að fastsetja vinnulag við úthlutun byggingarlóða í Rangárþingi ytra. Sérstaklega er þessum verklagsreglum ætlað að taka á málum sem fleiri en einn umsækjandi er um byggingarlóð.

2. gr.
Áður en byggingarlóðir eru auglýstar á opinberum vettvangi skal byggðarráð samþykkja umræddar lóðir lausar til umsóknar.

3. gr.
Þær lóðir sem byggðarráð hefur samþykkt lausar til umsóknar í fyrsta skipti skulu auglýstar á heimasíðu sveitarfélagsins; www.ry.is og einnig í öðrum fréttamiðlum, s.s. héraðsblöðum.

4. gr.
Umsóknarfrestur fyrir byggingarlóðir sem taka skal til afgreiðslu á byggðarráðsfundi skulu hafa borist skrifstofu Rangárþings ytra a.m.k. þremur virkum dögum fyrir reglulegan fund byggðarráðs kl. 16:00. Þær umsóknir sem berast eftir umræddan tíma verða ekki teknar til afgreiðslu fyrr en á reglubundnum fundi byggðarráðs næsta mánaðar.

5. gr.
Allar umsóknir sem borist hafa í byggingarlóðir skulu þá listaðar upp til framlagningar fyrir byggðarráð. Þær umsóknir eru einungis hæfar, þar sem umsækjandi stenst þær kröfur sem settur eru fram í “Úthlutunarreglum lóða í Rangárþingi ytra” frá 14.10.2021.

6. gr.
Ef fleiri en ein umsókn er um ákveðna byggingarlóð á þeim tíma, mun formaður byggðarráðs draga um þá röð umsækjenda viðkomandi byggingarlóðar í votta viðurvist, þ.e. annarra byggðarráðsmanna, sveitarstjóra og/eða fundarritara.

7. gr.
Þeim umsækjanda sem hefur forgang að byggingarlóð skal síðan gefinn 10 daga frestur á því að ákveða hvort hann ætli að nýta sér lóðina og greiða staðfestingargjald sbr. ákvæði úthlutunarreglna lóða í Rangárþingi ytra.

8. gr.
Ef umsækjandi fellur frá umsókn sinni og fleiri hæfir umsækjendur eru um viðkomandi lóð skal réttur til lóðar ganga til þess næsta í útdráttarröð. Ef ekki eru fleiri umsækjendur um lóðina verður henni haldið áfram í auglýsingu sem laus til umsóknar.

 

Samþykkt af sveitarstjórn á fundi 14. október 2021.

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?