Velkomin í Rangárþing ytra.

Eitt af landfræðilega stærstu sveitarfélögum landsins og telur rúmlega 1900 íbúa. Sveitarfélagið er eitt þriggja sveitarfélaga í Rangárvallasýslu, en sýslan liggur um miðbik Suðurlands og þar er að finna einstök náttúrugæði, hvort sem er á láglendi eða hálendi.
Sveitarfélagið varð til 9. júní 2002 við sameiningu þriggja hreppa í Rangárvallasýslu. Það voru Rangárvallahreppur, Djúpárhreppur og Holta- og Landssveit. 

Gosbeltið liggur þvert um sveitarfélagið og þar er að finna eitt virkasta eldfjall Íslands, Heklu sem er í 1.491 m.y.s. og hefur á síðustu eitt hundrað árum gosið sex sinnum, árin 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Nokkurn jarðhita má finna í Rangárþingi ytra, ekki síst Torfajökulssvæðið sem er eitt mesta jarðhitasvæði Íslands.

Veiðivötn eru á Landmannaafrétti og þangað sækja árlega þúsundir veiðimanna í stangveiði og vötnin afar gjöful af bleikju og urriða, en fiskirækt í Veiðivötnum er í höndum Veiðifélags Landmannaafréttar.

Margar vinsælar gönguleiðir má finna í Rangárþingi ytra, Laugavegurinn er þeirra þekktastur, önnur leið, minna þekkt er Hellismannaleið. Báðar virkilega áhugaverðar.

Í Rangárþingi ytra má finna alla almenna þjónustu og er þjónustustigið afar hátt. Þar eru tveir leikskólar og tveir grunnskólar, heilsugæsla, tvær sundlaugar, verslanir, banki, bifreiðaverkstæði, og hjúkrunar- og dvalarheimili, svo eitthvað sé nefnt.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?