Samþykktin sem pdf.

Samþykkt og gjaldskrá um matarvagna á Hellu

1. gr.

Tilgangur og almennar forsendur

Matarvagnar glæða bæjarfélagið lífi, eflir bæjarbrag og eykur við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu á Hellu í sveitarfélaginu Rangárþingi ytra.

Samþykktinni er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokki staðið, sölustarfsemi sé í sátt við nærumhverfi sitt og að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæjar.

Staðsetning matarvagna er leyfisskyld á Hellu og eru leyfi gefin út í tilgreindan tíma af byggðaráði Rangárþings ytra. Tveir valkostir eru í boði, báðir leyfisskyldir sjá nánar 3. gr.

Þeir eru:

  1. Langtímaleigusvæði söluvagna í heilt ár.
  2. Langtímaleigusvæði söluvagna í hálft ár.

Ekki er gert ráð fyrir að sækja þurfi um leyfi fyrir matarvagna vegna minniháttar viðburða, bæjarhátíða o.fl og falla því ekki undir samþykkt þessa.

Almennt gildir eftirfarandi um starfssemi matarvagna:

  • Matarvagnar mega ekki skerða öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi umferðar eða birgja glugga rekstraraðila á sölusvæðinu.
  • Ávallt ber að gæta hreinlætis og er söluaðila skylt að sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé snyrtilegt.
  • Leyfið er háð kvöð um að útlit söluaðstöðu falli vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað og við hæfi þar sem salan á að eiga sér stað.
  • Lögð er áhersla á að söluvarningur sé viðbót við það vöruúrval sem fyrir er hjá þjónustuaðilum í bæjarfélaginu.
  • Merkingar skulu vera í samræmi við reglur þessar.
  • Forsendur fyrir notkun á götum, torgum og landi bæjarins er að björgunaraðilar s.s. lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningar hafi þar ávallt greiðan aðgang og viðunandi starfsskilyrði.

Aðrir skilmálar sölusvæða eru:

  1. Lágmarksfjarlægð frá inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru skal vera að minnsta kosti 10 metrar.
  2. Leyfishöfum langtímaleyfa er óheimilt að stunda starfssemi annars staðar en leyfið kveður á um.
  3. Tryggja skal að ekki hljótist mengun af starfseminni.
  4. Leyfishafar langtímaleyfa skulu alltaf hafa leyfisbréf tiltæk. Leyfi er ekki hægt að framselja eða framleigja.

 

2. gr. Umsóknarferli og málsmeðferð umsókna langtímaleyfa og markaðssölu fyrir stærri viðburði

Byggingafulltrúi hefur umsjón með leyfisveitingum, auk eftirlits og upplýsingagjafar.

Afgreiðslum byggingafulltrúa geta umsækjendur vísað til byggðaráðs sem fer með úrskurðarvald um málefni matarvagna á grundvelli samþykktar þessarar. Leyfisveiting byggist meðal annars á umsóknum þar sem gerð er grein fyrir starfseminni og öðrum þáttum.

Fyrirkomulag úthlutunar byggir á „fyrstur kemur- fyrstur fær“ fyrirkomulagi og á það við um eitt leyfi að hámarki. Í því felst að umsóknir verða samþykktar í þeirri röð sem þær berast, sjá þó ákvæði 3. gr.

Leyfisveiting byggir á mati á þeirri umsókn sem berst, þar sem gera skal ítarlega grein fyrir fyrirhugaðri sölustarfsemi og allri umgjörð hennar; vöruframboði, þjónustu, sölutíma, staðsetningu, útliti og öllum aðbúnaði sem starfseminni fylgir. Leitast verður við að hafa fjölbreytta starfsemi á hverjum stað.

Á sölusvæðum eru tengingar við fráveitu og vatnsveitu bannaðar. Rangárþing ytra mun útvega rafmagnstengil á skilgreint athafnasvæði matarvagna og getur leyfishafi þá tengt sig við rafmagn sem greitt verður fyrir samkvæmt mæli eða áætlun.

Úthlutun byggir á fjórum meginþáttum:

  • Reglunni fyrstur kemur, fyrstur fær.
  • Gæðum umsóknar og þeim upplýsingum sem þar koma fram.
  • Kröfu um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu.
  • Fyrri reynsla af rekstri umsækjanda ef um slíkt er að ræða.

Byggingarfulltrúa er heimilt að hafna umsóknum ef hann telur að sú starfsemi sem í umsókninni felst uppfylli ekki kröfur um sölustarfsemi og/eða að starfsemin uppfylli ekki kröfur um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu. Umsóknum án tilskilinna gagna og leyfa er hafnað.

Höfnun skal rökstyðja með málefnalegum hætti. Hafni leyfisveitandi umsókn þá fellur umsóknin út og næsta umsókn þar á eftir færist upp í hennar stað.

Rangárþing ytra auglýsir einu sinni á ári á heimasíðu sveitarfélagsins hvenær opnað verður fyrir umsóknir um leyfi fyrir matarvagna. Frá og með auglýsingardegi verða umsóknir auðkenndar með dagsetningu og tíma þegar móttaka umsókna er staðfest.

a) Eyðublöð vegna umsókna er hægt að nálgast á heimasíðu Rangárþings ytra.

b) Í umsókn skulu koma fram nákvæmar upplýsingar eftir því sem við á, t.a.m.:

  • ósk um staðsetningu og stærð
  • uppdráttur af tilhögun sölusvæðis
  • ósk um gildistíma söluleyfis
  • sölustarfsemi og vöruframboð
  • gerð söluaðstöðu, umfang og umgjörð
  • útlit söluaðstöðu
  • sölu/opnunartíma
  • auglýsingar
  • sorpílát
  • orkugjafa
  • raforkuþörf

c) Með umsókn skulu fylgja umsagnir þeirra aðila sem þörf er á hverju sinni, s. lögreglustjóra og eldvarnaeftirlits.

Sá sem vill selja matvæli eða aðra neysluvöru skal sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995.

 

3.gr. Langtímaleigustæði sölubifreiða eða vagna

Sölustarfsemi getur m.a. farið fram í:

Sölubifreið og/eða söluvagni sem dreginn er af bifreið eða á annan hátt, þar sem afgreitt er út um söluop

Á afmörkuðum svæði er veitt langtímaleyfi fyrir stöðu hreyfanlegra söluvagna, sjá fylgiskjal 1.

Útgefið leyfi gildir í 6 eða 12 mánuði. Sala er heimiluð frá 07:00 til kl. 22:00. Almennt skal miða sölustarfsemi við lokun vínveitingahúsa og tekur framangreind tímasetning mið af því sbr. lög og reglur sem um starfsemina gilda á hverjum tíma eða eftir ákvörðun byggðaráðs hverju sinni. Forleiguréttur er í gildi fyrir þessi svæði og hefur umsækjandi sem hefur haft leyfi frá fyrra ári, forgang umfram aðra.

Umsækjandi skal vera skuldlaus við Rangárþing ytra og skal hafa virt lögreglusamþykkt sem gildir í Rangárþingi ytra og samþykkt þessa við endurumsókn að öðrum kosti fellur forleigurétturinn niður.

Greitt skal fyrir langtímaleigusvæð í eitt ár kr. 300.000,- pr. ár. Greitt skal fyrir langtímaleigusvæð í hálft ár kr. 200.000,- pr. ár.

Að auki greiða söluaðilar fyrir notkun rafmagns skv. mæli eða áætlun.

Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis er skv. 6. gr. Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum.

4. gr. Skyldur leyfishafa ‐ umgengni

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til leyfishafa:

  1. að sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé ávallt haldið hreinu og snyrtilegu.
  2. að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í nánasta umhverfi sínu, þannig að öryggi vegfarenda verði á hverjum tíma tryggt.

Verði misbrestur á ofangreindu getur byggingafulltrúi látið fjarlægja söluaðstöðu með aðstoð lögreglu og látið hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa. Skemmdir á umhverfi sölusvæðis af völdum leyfishafa verða lagfærðar af starfsmönnum Rangárþings ytra á kostnað viðkomandi leyfishafa.

5. gr. Útlit og merkingar

  1. Gerð er sú krafa að útlit söluvagns fari vel í umhverfinu, að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað og við hæfi á þeim stað sem salan á sér stað.
  2. Öll viðföng, sorpílát, merkingar, borð og annað tilheyrandi skal tilgreina í umsókn um stöðuleyfi. Standborð við hverja sölustöð mega mest vera 0,8 m að þvermáli og skulu aldrei vera fleiri en tvö. Heimilt er að vera með borð sem hægt er að sitja við þó að hámarki fyrir 6 einstaklinga. Að lágmarki skal vera eitt sorpílát við hvern söluvagn.
  3. Óheimilt er að setja upp hvers kyns auglýsingaskilti og merkingar nema á viðkomandi söluvagni.
  4. Með öllu er óheimilt að hengja skilti eða aðrar merkingar í nærliggjandi tré, húsveggi, skilti, staura o.s.frv. Skilti við vegi og á gangstéttum eru með öllu bönnuð.
  5. Allar umbúðir sem afhentar eru viðskiptavinum skulu vera úr umhverfisvænum efnum, endurvinnanlegu eða endurnýtanlegu hráefni.

6. gr. Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis

Eftirfarandi ákvæði gilda um uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis:

  1. Leyfi getur hvenær sem er verið afturkallað ef ákvæði leyfis þessa eða önnur atriði leyfisins hafa verið brotin, án endurgreiðslu leyfisgjalds.
  2. Leyfi getur hvenær sem er verið afturkallað ef áform eru um að svæðið verði notað í opinberum tilgangi, skal þá endurgreiða leyfishafa eftirstöðvar leyfisgjalds.
  3. Leyfi getur verið afturkallað ef samfellt rof myndast á sölustarfsemi í meira en 90 daga.
  4. Leyfishafa er gert skylt að laga sig að vega‐ og byggingaframkvæmdum og viðburðum á götu‐ og torgsölusvæðum, sem geta leitt til tímabundins flutnings og/eða afturköllunar. Leyfishafa skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir með fyrirvara. Ekki eru greiddar bætur fyrir tímabundna afturköllun á langtímaleyfum vegna veghalds eða annarra verkefna veghaldara og landeigenda, t.d. þar sem lagnir eða leiðslur hafa brostið.
  1. Við uppsögn leyfis hvílir sú kvöð á leyfishafa að fjarlægja söluaðstöðu þ.m.t. alla fylgihluti og innréttingar af sölusvæði. Ef verkið er ekki unnið innan tilgreinds tímafrests getur byggingafulltrúi látið fjarlægja söluaðstöðu með aðstoð lögreglu og látið hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa.
  2. Rangárþingi ytra er heimilt að segja upp söluleyfum þessum ef breytt nýting á nærliggjandi húsnæði og umhverfi krefst þess. Uppsagnarfrestur í þessum tilfellum er 90 dagar.

7. gr. Breytingar á fjárhæð gjalda

Gjöld skv. gjaldskrá þessari miðast við byggingarvísitölu í febrúar 2023 (113,5) og skulu uppfærð miðað við byggingarvísitölu 1. janúar hvers árs.

8. gr. Ágreiningur

Úrskurðarvald um ágreining vegna þessarar samþykktar hefur byggðaráð Rangárþings ytra. Mál sem hlotist geta af samþykkt þessari skal reka fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

9. gr. Gildistaka

Reglur þessar taka gildi við samþykkt sveitarstjórnar. Ákvæði 2. greinar um úthlutun og tímafresti auglýsingar gilda ekki við fyrstu úthlutun leyfanna árið 2023.

 

Hellu 5. apríl 2023.

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri

 

Fylgiskjal 1

Svæði fyrir langtímaleyfi matarvagna:

Við Miðvang á Hellu 4 stæði

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?