Reglur um styrki vegna veghalds í frístundabyggðum í Rangárþingi ytra


1. gr. Markmið
Markmið þessara reglna er að styðja við veghald í frístundahúsabyggðum í Rangárþingi ytra.

2. gr. Veghald
Í veghaldi felst að halda akstursleiðum innan viðkomandi frístundahúsabyggðar aksturshæfum, t.d. með ofaníburði, heflun eða snjómokstri. Ekki er um að ræða nýframkvæmdir í vegagerð á viðkomandi svæðum.

3. gr. Réttur til styrkveitingar
Rétt til styrkveitingar hafa öll formleg félög frístundabyggða í Rangárþingi ytra. Með hverri styrkumsókn skal fylgja sundurliðaður kostnaður viðkomandi framkvæmdar.

4. gr. Styrktarupphæð
Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins ár hvert er tilgreind ákveðin fjárhæð sem ætluð er til veghalds í frístundabyggðum. Styrkur til einstaks félags er óskilgreindur en getur að hámarki orðið: a. 15% af heildarupphæð í fjárhagsáætlun sveitarsjóðs. b. 50% af heildarupphæð framkvæmdarinnar.

5. gr. Úthlutunarreglur
Við mat á styrkupphæðum til einstakra félaga skal horft til tveggja þátta, annars vegar til heildar lengdar vega og hins vegar til fjölda frístundahúsa innan viðkomandi svæðis.

6. gr. Úthlutun styrkja
Úthlutun styrkja til veghalds fer fram á fundi sveitarstjórnar í október ár hvert fyrir yfirstandandi ár. Aðeins er hægt að sækja um styrk fyrir framkvæmdir sem eiga sér stað á því ári. Umsóknir skulu berast sveitarstjóra í síðasta lagi 15. september ár hvert. Byggðarráð yfirfer styrkumsóknir og gerir tillögu til sveitarstjórnar um styrkveitingar til hvers félags. Við mat á styrkveitingum skal sveitarstjórn fara eftir ákvæðum 4. greinar.

7. gr. Annað
Þessi samþykkt var staðfest á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra þann 10.10 2019 og tekur gildi 1. janúar 2020.

Greinargerð:
Sveitarfélagið fær allmargar fyrirspurnir og beiðnir sem tengjast viðhaldi vega að og í frístundabyggðum innan sveitarfélagsins. Stundum er ekki alveg ljóst hvernig standa skal að viðhaldinu og mismunandi hvað hentar á hverjum stað. Sveitarfélagið hefur í gegnum tíðina eftir föngum látið hefla eða látið lagfæra aðkomu að sumarhúsabyggðum sem upphaflega voru á landi í eigu sveitarfélagsins en ekki hafa verið neinar nákvæmar leiðbeiningar um hvernig þessi mál eiga að vera. Dæmi eru um að sveitarfélög hafi sett á fót e.k. styrktarsjóði fyrir þessi verkefni sem félag sumarhúsaeiegnda í viðkomandi frístundabyggð hafa síðan getað sótt í á hverju ári. Þetta virðist hafa reynst ágætlega, verið sátt um ferlið, og því eðlilegt að Rangárþing ytra nýti þennan möguleika.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?