95. fundur 18. júlí 2016 kl. 09:00 - 11:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Haraldur Eiríksson
  • Anna María Kristjánsdóttir
  • Yngvi Karl Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi

1.Stóru-Vellir, Landskipti

1607004

Óðinn Pálsson óskar eftir landskiptum úr jörð sinni Stóru-Völlum landnr. 165011. Um er að ræða spildu ca 3,0 ha að stærð og er afmörkuð skv. uppdrætti frá Loftmyndum ehf. Ný lóð fær nafnið Stóru-Vellir 5.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áformuð landskipti.

2.Endurskoðun aðalskipulags Flóahrepps

1604027

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur hafið vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins. Í dag eru í gildi þrjár aðalskipulagsáætlanir sem hver og ein nær yfir eitt af þremur sveitarfélögunum sem sameinuðust í Flóahrepp árið 2006, þ.e. Hraungerðishrepp, Gaulverjabæjarhrepp og Villingaholtshrepp, en með nýju aðalskipulagi verða svæðin sameinuð í eitt skipulag sem nær yfir allt land sveitarfélagsins. Óskað er eftir umsögn um meðfylgjandi verkefnislýsingu.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við lýsinguna.
Fylgiskjöl:

3.Minnkun vatnsverndarsvæðis við Keldur á Rangárvöllum.

1309029

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur samþykkt að gera breytingar á afmörkun vatnsverndarsvæðis ofan við Keldur á Rangárvöllum. Samráð hefur verið haft við Rangárþing eystra og liggur nú fyrir skýrsla frá ÍSOR þar sem nýjar áherslur eru lagðar fram. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu er lagt til að fjarsvæði vatnsverndar fyrir Krappa nái inná það svæði sem áður var lagt til að yrði afmáð sem vatnsverndarsvæði þannig að fyrirhuguð minnkun vatnsverndar ofan við Keldur yrði ekki eins mikil og lagt var af stað með í upphafi. Ný tillaga ÍSOR um afmörkun hefur þó ekki áhrif á minnkun grannsvæðis ofan við Keldur.
Skipulagsnefnd telur að skýrsluhöfundur þurfi að samræma niðurstöður sínar fyrir bæði sveitarfélögin áður en hægt verður að taka ákvörðun. Samkvæmt framlögðum skýrslum höfundar kemur fram skörun í fjarsvæði vatnsverndar eins og afmörkun þeirra er lögð fram í skýrslunum. Nefndin leggur því til að afgreiðslu verði frestað þar til samræmt álit ÍSOR liggur fyrir.
Bjarni Jón Matthíasson veitustjóri Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps kynnti niðurstöðu ferilefnarannsóknarinnar frá ÍSOR.

4.Jarlsstaðir, deiliskipulag fyrir alifuglahús

1510001

Þór Þorsteinsson óskar eftir heimild sveitarstjórnar til að fá að deiliskipuleggja svæði undir alifuglahús. Til stendur að byggja eldishús fyrir kjúklinga sem á að geta annað allt að 60.000 fuglum og verði um 3.500 m² að stærð. Að kröfu Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps var ferilefnarannsókn sett af stað á vegum ÍSOR til að meta grunnvatnsrennsli á svæðinu m.t.t. mengunarhættu frá áformuðum rekstri alifuglahússins. Fyrir liggur álit frá fundi stjórnar Vatnsveitunnar um fyrirhuguð áform umsækjanda.
Skipulagsnefnd fagnar niðurstöðu rannsóknarinnar. Nefndin telur þó að úrlausnir vanti frá umsækjanda varðandi frágang á úrgangi frá fyrirhuguðu alifuglaeldi, sem nefndin telur nauðsynlegt að sett verði inní greinargerð deiliskipulagsins, og leggur til að afgreiðslu verði frestað þar til umsögn liggur fyrir frá Heilbrigðiseftirliti um framkvæmd förgunar á úrgangi ásamt því að kallað verði eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits vegna niðurstöðu skýrslunnar frá Vatnsveitu.
Bjarna Jóni þökkuð góð kynning.

5.Heysholt Breyting á deiliskipulagi

1602043

Guðmundur Björnsson hefur fengið heimild til að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi frá 7.6.2013 fyrir Heysholt. Í stað lóðar undir þyrpingu frístundahúsa og lóðar undir þjónustuhús verða þær lóðir sameinaðar í eina þar sem gert er ráð fyrir 2-3ja hæða hótelbyggingu. Í yfirferð Skipulagsstofnunar komu fram athugasemdir og ábendingar sem kalla á umfjöllun og lagfæringar. Einnig kom fram að umrædd framkvæmd sé tilkynningaskyld skv. lið 12.05, B-flokkki í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Fyrir liggur umhverfismat.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu en telur að auglýsa eigi tillöguna að nýju í ljósi breyttra áherslna í greinargerð. Einnig verður að taka mið af niðurstöðu Skipulagsstofnunar vegna tilkynningar sem lúta að mati á umhverfisáhrifum.

6.Landmannalaugar, deiliskipulag

1310038

Rangárþing ytra vinnur að gerð deiliskipulags fyrir Landmannalaugar. Fyrir liggur lýsing skipulagsáætlunar.
Skipulagsnefnd samþykkir fyrirliggjandi lýsingu og leggur til að hún verði kynnt skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur að eftir að lýsing hefur verið kynnt umsagnaraðilum og Skipulagsstofnun skuli haldin kynning á opnum fundi áður en eiginleg tillaga lýtur dagsins ljós.

7.Rangárbakkar 1-3, áform um skipulag

1605009

Framkvæmdahópur á vegum Kaupfélags Skagfirðinga leggur fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir þjónustusvæði við Rangárbakka á Hellu. Í tillögunni felst að deiliskipulagssvæðið stækkar til suðurs. Lóðirnar Rangárbakki 1,3,5 og 11 eru sameinaðar í eina lóð. Lóðirnar eru í dag skilgreindar sem athafnalóðir auk þess er ein lóð skilgreind sem iðnaðarlóð. Deiliskipulagsbreytingin gerir ráð fyrir að sameinuð lóð verði skilgreind sem verslunar- og þjónustulóð. Afmarkaðir eru þrír byggingareitir fyrir verslun- og þjónustubyggingar á lóðinni. Einnig eru afmarkaðir byggingareitir fyrir 40 frístundahús, þjónustuhús fyrir frístundahús auk byggingareits fyrir sjálfsafgreiðslu eldsneytisstöð.
Gert er ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði pr. 50 m².
Skipulagsnefnd telur að afmörkun svæðisins í texta greinargerðar þurfi að vera nákvæmari og í samræmi við afmörkun á uppdrætti. Að öðru leyti samþykkir nefndin fyrirliggjandi tillögu og leggur til að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Fagurhóll, Breyting á deiliskipulagi

1607008

Landeigendur Fagurhóls óska eftir heimild til að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi fyrir Fagurhól frá 14.10.2014. Fyrir liggur tillaga sem felur í sér nýja aðkomu að Fagurhóli frá Árbæjarvegi í stað núverandi sameiginlegrar aðkomu Fagurhóls og Grásteins.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áform landeiganda og samþykkir framlagða tillögu með fyrirvara um samþykki Vegagerðarinnar fyrir nýrri tengingu inná Árbæjarveginn. Í ljósi þess að fyrirhuguð áform hafa engin áhrif á aðra en sveitarfélagið og umsækjendur að þá verði meðferð eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Skipulagsfulltrúa verði því falið að auglýsa breytinguna þegar jákvæð umsögn Vegagerðarinnar liggur fyrir.

9.Uxahryggur, deiliskipulag þjónustusvæðis

1607007

Oddsteinn Magnússon óskar eftir heimild til að deiliskipuleggja hluta úr landi Uxahryggjar til uppbyggingar fyrir ferðaþjónustu ásamt því að sett verði fram áform um byggingu íbúðarhúss og fl.
Skipulagsnefndin samþykkir að veita heimild til deiliskipulagsgerðar og felur jafnframt skipulagsfulltrúa samhliða að gera tillögu að breytingum á aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010/2022 þar sem umrætt svæði verði gert að þjónustusvæði í stað landbúnaðar núna. Umrædd breyting verði ekki hluti af vinnu við yfirstandandi endurskoðun aðalskipulagsins.

10.Hagi lóð 165215, umsókn um lögheimili

1605061

Guðmundur Á. Ingvarsson óskar eftir að fá að flytja lögheimili sitt á land sitt, Hagi lóð 165215 við Gíslholtsvatn. Skoðun á mannvirki hefur farið fram og uppfyllir húsnæði öll skilyrði um íbúð. Landið er skilgreint sem frístundasvæði í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 en hefur ekki verið deiliskipulagt. Byggðaráð gerði ekki athugasemdir við áform umsækjanda og samþykkti á fundi dags. 27.6.2016 að heimila breytingar á landnotkun í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022.
Skipulagsnefnd samþykkir að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á landnotkun í aðalskipulagi þar sem núverandi spilda verði felld úr frístundanotkun og sett í landbúnaðarnotkun að nýju. Umrædd breyting verði sett inní vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins sem nú er í gangi.

11.Hellubíó, fyrirspurn um breytta notkun húsnæðis

1508022

Al-Hönnun ehf, fyrir hönd fyrirspyrjenda, óskar eftir áliti sveitarstjórnar á því hvort mögulega geti orðið um breytta notkun að ræða á húsnæðinu Hellubíó, þar sem áformað er að breyta notkun þess í gistiheimili / hostel fyrir ferðamenn. Gert yrði ráð fyrir allt að 12-14 herbergjum með sameiginlegri salernis- og sturtuaðstöðu og aðgangi að fullbúna eldhúsi fyrir gesti. Ekki yrði um veitingasölu að ræða. Erindið tekið upp aftur vegna frestunar í fyrri afgreiðslu. Teikningar lagðar fram til glöggvunar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við áform umsækjanda.

12.Saurbær í Holtum, hraðahindrun

1604046

Bæring Jón Guðmundsson fyrir hönd ábúenda á Saurbæ hefur óskað eftir aðgerðum til að sporna við hraðakstri í gegnum bæjarhlaðið að Saurbæ. Skipulagsfulltrúi hefur fundað með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar um þetta mál.
Niðurstaða fundarins með Vegagerðinni var á þá leið að Vegagerðin mun koma fyrir merkingum og þrengingum til að draga úr hraða á umræddu svæði.

Lagt fram til kynningar.

13.Hraðahindrun í Þykkvabæ

1508018

Kristín Bjarnadóttir, íbúi að Stóra Rimakoti, hefur óskað eftir að sett verði hraðahindrun sitt hvoru megin við íbúðarhús sitt. Skipulagsfulltrúi átti fund með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar vegna þessa erindis.
Niðurstaða fundarins með Vegagerðinni var á þá leið að sveitarfélagið mun koma fyrir færanlegum hraðahindrunum og merkingum við Stóra Rimakot.

Lagt fram til kynningar.

14.Reiðleið með vegi í Þykkvabæ

1604055

Kristín Bjarnadóttir fyrir hönd nokkurra hestamanna í Þykkvabæ hefur óskað eftir framkvæmdaleyfi til lagningar reiðvegar meðfram veginum á milli Austurbæja í Þykkvabæ. Afgreiðsla sveitarstjórnar var á þá leið að kalla þyrfti eftir samþykktum allra viðkomandi landeigenda ásamt því að staðfesting vegagerðarinnar þyrfti að liggja fyrir vegna þverana vegar. Skipulagsfulltrúi átti fund með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar vegna þessa erindis.
Samkvæmt áliti Vegagerðarinnar er ekki talið forsvaranlegt að þvera umræddan veg fyrir hestaumferð. Reiðleiðin verði því ekki samþykkt nema hún liggi sömu megin vegar alla leið og að samþykki allra aðliggjandi landeigenda liggi fyrir.

Skipulagsnefnd tekur undir álit Vegagerðarinnar og frestar því afgreiðslu erindisins þar til samþykki landeigenda liggur fyrir.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?