107. fundur 20. febrúar 2017 kl. 09:00 - 11:00 Suðurlandsvegi 1-3
Nefndarmenn
  • Haraldur Birgir Haraldsson
  • Þorgils Torfi Jónsson
  • Anna María Kristjánsdóttir
  • Yngvi Karl Jónsson
  • Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Fundargerð ritaði: Birgir Haraldsson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Ásgeir Jónsson og Ingibjörg Sveinsdóttir frá Steinsholti fóru yfir helstu atriði

1.Endurskoðun aðalskipulags Rangárþings ytra

1305001

Meðfylgjandi eru drög að ákveðum köflum greinargerðar og umhverfisskýrslu.
Kaflar um Samfélagsþjónustu og Íþróttasvæði breytast mjög lítið frá gildandi aðalskipulagi.
Kaflar um íbúðabyggð og frístundabyggð breytast lítið hvað varðar stefnumörkun utan þess að gert er ráð fyrir að lóðir minnki heldur.
Kafli um landbúnaðarland breytist heldur ekki mikið, utan þess sem vísað er í kafla um Stakar framkvæmdir en þar verður tekið á frístunda- og íbúðarhúsum í dreifbýli sem ekki tengjast búrekstri.
Tillaga að fundaplani lögð fram.
Farið var yfir helstu áhersluatriði. Fundaplan uppfært.
Ráðgjöfum þökkuð góð yfirferð.

2.Hvammsvirkjun, deiliskipulag

1411068

Lögð fram drög að tillögu deiliskipulags.
Lagt fram til kynningar. Nefndin telur að kynna eigi tillöguna skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga og skuli kynning fara fram með auglýsingu í staðarblaði ásamt að tillaga verði birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

3.Hraun, Erindi vegna stofnunar lögbýlis

1609024

Sveitarfélagið hefur samþykkt að gera breytingar á landnotkun á spildunum Hraun og Leirubakki lóð. Kynning tillögu fór fram skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga dagana 15. - 17. febrúar sl. Tillagan var auglýst í staðarblöðum ásamt að liggja frammi hjá skipulagsfulltrúa þessa daga.
Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og leggur til hún verði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Svæði sunnan Suðurlandsvegar. Deiliskipulag

1601008

Eignarhaldsfélagið RSS ehf leggur fram deiliskipulag af svæðinu sunnan Suðurlandsvegar, austan Gaddstaðavegar. Áform eru uppi um byggingu þjónustuhúsa og markaðsaðstöðu ásamt tengingu við reið- og göngustígakerfi Hellu. Tillaga að deiliskipulagi var auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi frá 10.11.2016 til og með 22.12.2016. Athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun í lokaferli tillögunnar þar sem gerð er athugasemd við efnislega framsetningu varðandi byggðamynstur og útlit bygginga ásamt því að gera þarf frekari grein fyrir samgöngukerfi innan lóðanna. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa uppfærða tillögu. Lögð fram uppfærð tillaga.
Skipulagsnefnd telur að búið sé að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og leggur til að tillagan verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Helluvað 2 og Nes, vatnsvernd

1603020

Stjórn Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps hefur óskað eftir að breytingar verði gerðar á afmörkun vatnsverndar norðan þéttbýlis á Hellu. Óskað er jafnframt eftir því að afmörkun verði uppfærð í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkti að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar á aðalskipulaginu. Lögð fram lýsing
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi lýsingu og leggur til að hún verði send til umsagnar og kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Oddabrú yfir Þverá

1501024

Vegtenging frá Odda að Bakkabæjum yfir Þverá. Framkvæmdaleyfi
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur skipulagsnefnd Rangárþings ytra farið yfir áform og tilkynningu framkvæmdaraðila. Niðurstaða nefndarinnar er að framkvæmdin við veglagningu og brúun þverár við Odda sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Umsagnir vegna framkvæmdaleyfis liggja fyrir frá Kirkjuráði og Minjastofnun. Umsögn hefur ekki borist frá Fiskistofu. Jafnframt hafa áformin verið kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu, svo sem veiðifélagi og landeigendum og liggja engar athugasemdir fyrir af þeirra hálfu. Framkvæmdin er í fullu samræmi við skilmála aðalskipulags sveitarfélagsins þar sem veglína er sýnd á uppdrætti og fjallað um veglagninguna í greinargerð. Skipulagsnefnd telur því ekki ástæðu til að grenndarkynna áformin og leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi þegar umsögn hefur borist frá Fiskistofu og sveitarstjórn hefur lokið afgreiðslu sinni.

Fundi slitið - kl. 11:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?